Vara við svikastarfsemi á Seltjarnarnesi

Lögreglan varar íbúa við því að kaupa þjónustu á þennan …
Lögreglan varar íbúa við því að kaupa þjónustu á þennan hátt enda bæði um að ræða ólöglegt athæfi og gert í sviksamlegum tilgangi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lögreglan varar íbúa á Seltjarnarnesi við því að kaupa þjónustu manna sem hafa farið á milli húsa þar, og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu, og boðist til að spúla innkeyrslur, glugga eða þök gegn gjaldi.  

Í ábendingu frá lögreglu segir að bæði sé ólöglegt að kaupa þjónustu á þennan hátt og þetta sé gert í sviksamlegum tilgangi. 

„Að minnsta kosti tveir erlendir menn voru á ferðinni í síðustu viku í þessum erindagjörðum. Þeir voru klæddir áberandi gulum og appelsínugulum vestum, bönkuðu upp á með bækling og buðu fram þjónustu sína. Í upphafi er boðið lágt verð í þjónustuna en svo þegar verkið er komið af stað eða er að ljúka þá er tilgreint að það þurfi að greiða meira því vinnan sé miklu meiri,“ kemur fram í ábendingunni.

Lögreglan hvetur íbúa til að afþakka strax alla svona þjónustu, losa sig við viðkomandi og hafa í framhaldi samband við lögregluna í síma 444-1000 eða 112. Ávallt er gott að gefa sem nákvæmasta lýsingu á stað, stund og lýsingum á fólki og farartækjum.

Þá er tekið fram að starfsmenn þjónustumiðstöðvar Seltjarnarnesbæjar eru ávallt í merktum vinnufatnaði Seltjarnarnesbæjar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert