Verklagi fylgt í máli sykursjúks drengs

mbl.is/Arnþór Birkisson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að embætti héraðssaksóknara hafi í maí síðastliðnum ákveðið að hætta að rannsaka mál sem varðar meint ófagleg vinnubrögð lögreglu eftir að 17 ára piltur var færður á lögreglustöð eftir skóladansleik.

Berg­ljót Davíðsdótt­ir blaðamaður birti aðsenda grein í nýj­asta tölu­blaði Stundarinnar þar sem hún greindi frá því hvernig 17 ára dótt­ur­son­ur henn­ar, sem er með syk­ur­sýki, var vistaður í fanga­geymslu og að hann hafi verið beittur harðræði eftir að hafa sprautað sig með insúlíni á skóla­balli í Hafnar­f­irði.

Til rannsóknar var hjá héraðssaksóknara hvort lögreglumenn sem að málinu komu hefðu gerst sekir um brot gegn almennum hegningarlögum, að því er kemur fram í svari lögreglunnar við fyrirspurn mbl.is. Til grundvallar ákvörðuninni voru m.a. upptökur úr eftirlitsmyndavélum í fangamóttöku og fangagangi lögreglustöðvarinnar sem sýna samskipti lögreglu og piltsins.

„Kemur einnig fram að ekki verði annað séð en að verklagi, sem ber að viðhafa þegar um börn er að ræða, hafi verið fylgt hjá lögreglu við afgreiðslu málsins. Þá kemur fram að forráðamanni piltsins var tilkynnt um handtökuna 12 mínútum eftir að komið var með piltinn á lögreglustöð, en þá voru liðnar 24 mínútur frá því að pilturinn var handtekinn,“ að því er segir í svari lögreglunnar en ákvörðun héraðssaksóknara var ekki kærð til ríkissaksóknara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert