Andlát: Erlingur Sigurðarson

Erlingur Sigurðarson.
Erlingur Sigurðarson.

Erlingur Sigurðarson, skáld og fv. kennari, lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 12. nóvember sl., sjötugur að aldri.

Erlingur fæddist á Grænavatni í Mývatnssveit 26. júní 1948, sonur hjónanna Sigurðar Þórissonar, bónda og oddvita, og Þorgerðar Benediktsdóttur, kennara og húsfreyju.

Erlingur varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1969. Hann lauk BA-prófi í íslensku og sögu frá HÍ 1976, cand. mag.-prófi frá sama skóla 1987 og prófi í uppeldis- og kennslufræði 1981. Hann stundaði einnig nám við Colby College í Maine í Bandaríkjunum og háskólann í Tübingen í Þýskalandi.

Erlingur var kennari við Menntaskólann á Akureyri 1978-97 og forstöðumaður Sigurhæða – Húss skáldsins á Akureyri 1997-2003.

Á yngri árum og skólaárunum vann hann við bústörf á Grænavatni, var blaðamaður við Tímann og Þjóðviljann og síðar við blaðið Norðurland á Akureyri. Hann sinnti þáttagerð fyrir RÚV og var m.a. umsjónarmaður þáttarins Daglegt mál 1986-87. Hann birti fjölda greina og ljóða í blöðum og tímaritum og gaf út tvær ljóðabækur: Heilyndi 1997 og Haustgrímu 2015. Hann var einnig þekktur fyrir þátttöku í spurningaþáttum, m.a. í Útsvari.

Erlingur gegndi einnig fjölda trúnaðarstarfa. Síðast sat hann í Stjórnlagaráði sem starfaði árið 2011. Áður hafði hann m.a. starfað á vegum Stúdentaráðs og fyrir Alþýðubandalagið auk þess sem hann sat í nefndum fyrir Akureyrarbæ og í stjórn Útgerðarfélags Akureyrar 1987-95, í stjórn Mecklenburger Hochseefischerei 1993-95, í Ferðamálaráði 1987-91 og í stjórn Hins íslenska kennarafélags 1989-91. Erlingur naut starfslauna listamanns hjá Akureyrarbæ 2005 og fékk heiðursviðurkenningu Menningarsjóðs Akureyrar fyrir ritlist árið 2016.

Eiginkona Erlings var Sigríður Stefánsdóttir, fv. kennari, bæjarfulltrúi og stjórnandi hjá Akureyrarbæ. Þau eiga þrjú uppkomin börn, Ernu, Sigurð og Kára.

Útförin verður frá Akureyrarkirkju 22. nóvember nk. kl 13.30.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert