Boðið inn af ókunnri „stúlku“

Arnrún segist alltaf vera mjög vör um sig en að …
Arnrún segist alltaf vera mjög vör um sig en að mikilvægt sé að fólk átti sig á hættunni. Ljósmynd/Aðsend

„Það er ekkert mál fyrir ofbeldismenn að hafa samband við unga krakka á Instagram,“ segir Arnrún Bergljótardóttir, sem lenti í miður skemmtilegri reynslu í London á dögunum þar sem hún er stödd í heimsókn hjá föður sínum.

Arnrún vill segja sögu sína til þess að hún geti orðið öðrum víti til varnaðar, en bresk stúlka, að því er virtist, hafði samband við Arnrúnu í gegnum Instagram og vildi kynnast henni.

Eftir nokkurra daga spjall ákváðu þær að hittast á kaffihúsi og segir Arnrún þær hafa ákveðið að verða samferða. Það tók Arnrúnu innan við tíu mínútur að ganga að staðnum þar sem stúlkan sagðist eiga heima. „Ég sendi henni skilboð um að ég væri fyrir utan og spurði hana hvort við ættum ekki að labba af stað,“ útskýrir Arnrún.

Allt í einu komin í sturtu og bauð henni inn

„Þá sagðist hún vera nýbúin að hoppa í sturtu og spyr mig hvort ég vilji ekki bara koma inn, sem mér fannst mjög skrýtið því hún vissi að ég væri að koma.“

Arnrún segist alltaf vera mjög vör um sig og var ekki farið að lítast á blikuna. „Hún var mjög ýtin að reyna að láta mig koma inn. Hún segir mér að hliðið sé opið og að ég eigi að fara á bak við húsið. Ég sagði henni að ég væri ekki að fara að koma inn til hennar, að ég viti ekki hver hún er og bið hana að koma út. Hún svarar mér og bara hlær og gerir lítið úr því, að ég eigi ekki að gera mál úr þessu.“

Þegar þarna var komið sögu var Arnrún komin með nóg og sendi stúlkunni skilaboð um að hún ætlaði að labba heim. „Þá blokkar hún mig alls staðar.“

Arnrún ítrekar að sjálf hafi hún aldrei verið í hættu, enda verið mjög varkár og fljót að forða sér þegar hún áttaði sig á aðstæðum. „En ég vil ekki að neinn lendi í þessu. Ég vil að fólk hugsi sig tvisvar um áður en það fer og hittir einhvern.“

Aðrir gætu látið blekkjast

Hún segist þakka fyrir að hún hafi áður heyrt um þessa aðferð sem er gjarnan notuð af glæpamönnum til þess að tæla ungt fólk, sérstaklega ungar konur, til sín. „Ég passaði mig mjög vel og held að flestir hefðu gert það sama, en einhver yngri og reynsluminni hefði mögulega látið blekkjast. Ég hefði ekki áttað mig á þessu fyrir nokkrum árum. Sumir eru mjög hvatvísir og vita ekki betur, hafa kannski búið á Íslandi allt sitt líf.“

„Mér finnst mjög mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að þetta er að gerast, og þetta er að gerast á Instagram. Instagram er ekki öruggur staður fyrir unga krakka. Það er hættulegt fólk til sem er duglegt að þykjast vera einhver annar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert