Kæra mann vegna grjótkasts og ofbeldis

Að sögn Ólafs var lögreglan fljót að bregðast við.
Að sögn Ólafs var lögreglan fljót að bregðast við. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafur Ásberg Árnason og eiginkona hans, Ragna Bachman Egilsdóttir, ætla að leggja fram kæru gegn manni sem veittist að Rögnu og hundunum þeirra tveimur síðdegis á mánudag. Ólafur staðfestir þetta í samtali við mbl.is, en kæran verður lögð fram hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu síðdegis í dag þegar þau hafa farið með hundana til dýralæknis.

Ólafur lýsir því fyrir mbl.is þegar Ragna hringdi í hann rétt fyrir klukkan 16 á mánudag. Hann heyrði að hún var í mikilli geðshræringu áður en símtalið slitnaði, en hún hringdi aftur skömmu síðar og áttaði Ólafur sig á því að eitthvað alvarlegt væri í gangi.

Hann dreif sig af stað og hringdi í Neyðarlínuna þar sem hann fékk sambandi við lögreglu, sem var mætt á staðinn við Gálgahraun skammt frá Álftanesvegi þegar Ólafur kom.

Ragna hafði verið úti að ganga með hundana þegar hún sá mann reyna fyrir sér á einhjóli og smellti af honum myndum úr nokkurri fjarlægð. Maðurinn brást illa við, sveiflaði einhjólinu í annan hundinn, tók upp grjót og kastaði í hann og öðru grjóti í hinn hundinn. Hann hafði tekið upp þriðja grjótið og virtist ætla að kasta því í Rögnu þegar hjólreiðamaður kom askvaðandi og öskraði á manninn, sem varð til þess að hann lét grjótið síga.

Maður á jeppa varð einnig vitni að atburðunum og snarstansaði. Að sögn Ólafs hefur sá maður haft samband við þau og er búinn að gefa lögreglu skýrslu vegna málsins.

„Lögreglan brást mjög hratt við,“ segir Ólafur, lögreglan hafi rætt við manninn um stund og svo sleppt honum og sagt Rögnu að hún gæti lagt fram kæru. Ragna og hundarnir eru í miklu uppnámi.

Ólafur deildi reynslu þeirra hjóna á Facebook í gær og segir í samtali við mbl.is að nokkrir hafi haft samband við hann og sagst hafa orðið fyrir barðinu á sama manni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert