Brugðist við lyfjaskorti

Um þessar mundir er unnið að uppsetningu tilkynningahnapps á vef …
Um þessar mundir er unnið að uppsetningu tilkynningahnapps á vef Lyfjastofnunar. Ljósmynd/Thinkstock

Lyfjastofnun hefur gripið til aðgerða til þess að bregðast við lyfjaskorti og er markmið þeirra að bæta yfirsýn stofnunarinnar og auðvelda henni að grípa til ráðstafana þegar nauðsyn krefur.

Í lok október kynnti Lyfjastofnun nýtt fyrirkomulag sem felur í sér að apótek megi eiga birgðir óskráðra lyfja á lager án þess að samþykki stofnunarinnar til afgreiðslu undanþágulyfsins liggi fyrir, en með breytingunni vonast stofnunin til þess að afgreiðsla undanþágulyfja geti gengið mun hraðar fyrir sig en áður.

Í þessari viku var ákveðið að apótekum skyldi heimilt að afgreiða undanþágulyf áður en formlegt samþykki Lyfjastofnunar liggi fyrir, í sérstökum tilfellum, með undanþágulyfseðli á pappír.

Þá hefur Lyfjastofnun gefið út fyrirmæli sem fela í sér að markaðsleyfishöfum lyfja sem eru markaðssett á Íslandi beri að tilkynna til stofnunarinnar þegar fyrirséð er að skortur verði á tilteknu lyfi, með eins góðum fyrirvara og hægt er.

Um þessar mundir er einnig unnið að uppsetningu tilkynningahnapps á vef Lyfjastofnunar þar sem almenningur getur sent inn nafnlausa ábendingu um lyfjaskort. Auk þess vinnur Lyfjastofnun Evrópu að lausnum vegna lyfjaskorts, en nánar er hægt að lesa um málið á vef Stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert