Nýtt neyðarskýli fyrir unga vímuefnaneytendur

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt að fela skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að ganga til samninga um kaup á húsnæði fyrir neyðarskýli fyrir unga vímuefnaneytendur.

Fram kemur á vef borgarinnar, að húsnæðið, sem er 216 fermetrar að stærð, sé staðsett að Grandagarði 1 A og sé tvílyft.

„Breytingar verða gerðar á húsnæðinu, meðal annars komið fyrir lyftu á milli hæða. Gert er ráð fyrir að starfsemin hefjist í mars á næsta ári en þangað til verður tímabundin fjölgun plássa í Gistiskýlinu við Lindargötu, til að mæta því markmiði velferðarráðs að ekki þurfi að vísa neinum frá í vetur.

Í neyðarskýlinu, sem er fyrir unga karlmenn í neyslu, verður sólarhringsvakt og er áætlaður rekstrarkostnaður um 115 m.kr. á ári,“ segir á vef borgarinnar. 

Þá kemur fram, að á fundi borgarráðs hafi einnig verið farið yfir undirbúning vegna kaupa á 25 smáhýsum en þau verða staðsett í nokkkrum þyrpingum vestan Elliðaáa. Áætlað sé að framkvæmdum við þau verði einnig lokið í mars á nýju ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert