Ákærður fyrir hættulega líkamsárás

Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur karlmanni fyrir sérstaklega …
Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur karlmanni fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Héraðssaksóknari hefur ákært karlmann um tvítugt fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og hættu- og umferðarlagabrot 24. febrúar á þessu ári.

Í fyrri ákæruliðnum kemur að hann hafi ekið bifreið af ásetningi á aðra bifreið á Hafnarfjarðarvegi, við frárein upp í Hamraborg, með þeim afleiðingum að hún skall á vegrið og valt utan vegar.

Þrjár stúlkur slösuðust 

Ökumaður bifreiðarinnar sem valt, 18 ára stúlka, hlaut heilahristing, tognun á háls- og brjósthrygg og skrámur á vinstri hendi og hægri vísifingri. Tvær aðrar stúlkur sem voru farþegar í bifreiðinni slösuðust einnig. Önnur þeirra, sem er 18 ára, hlaut tognun á háls- og brjósthrygg ásamt mari á hægra lunga og kviðvegg og hin, sem er 15 ára, hlaut tognun á háls- og brjósthrygg ásamt yfirborðsáverka á mjaðmagrind.

mbl.is/Arnþór

Stofnaði lífi og heilsu í hættu 

Í síðari ákæruliðnum er maðurinn ákærður fyrir hættubrot og umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni án ökuréttinda um miðjan dag á fjölfarinni akbraut án nægjanlegrar aðgæslu og varúðar með þeim afleiðingum sem er lýst í fyrri ákærulið. Í kjölfarið sinnti ákærði ekki skyldum sínum við umferðarslys heldur ók rakleiðis af vettvangi án þess að gæta að farþegum hinnar bifreiðarinnar.

Með akstrinum er hann sagður hafa raskað umferðaröryggi á alfaraleið og stofnað á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu farþega hinnar bifreiðarinnar og konu sem var farþegi í bifreið hans í augljósan háska, svo og annarra vegfarenda.

Þess er krafist er að maðurinn verið dæmdur af Héraðsdómi Reykjaness til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Hver um sig krefst 1 milljónar í miskabætur

Í einkaréttarkröfum krefst ökumaður bifreiðarinnar sem valt þess að maðurinn verði dæmdur til að greiða henni eina milljón króna í miskabætur með vöxtum. Annar farþegi bifreiðarinnar krefst einnig einnar milljónar króna í miskabætur, rétt eins og faðir hins farþegans sem er ekki fjárráða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert