Sagt upp fyrirvaralaust eftir 44 ár

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Vöku hf, björgunarfélag, til að greiða karlmanni á sjötugsaldri rúmar 2,8 milljónir króna með dráttarvöxtum í skaðabætur fyrir að hafa sagt honum fyrirvaralaust upp störfum, án uppsagnarfrest, eftir 44 ára starf hjá fyrirtækinu.

Fyrirtækið var einnig dæmt til að greiða manninum 900 þúsund krónur í málskostnað. Maðurinn hafði farið fram á 2.860.936 krónur í bætur en til vara 2.812.936 krónur, sem hann svo fékk.

Í uppsagnarbréfinu, dagsettu 28. febrúar síðastliðinn, var ástæða uppsagnarinnar sögðu vera alvarlegt trúnaðarbrot. Fram kom að samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins hafi bifreið í eigu hans verið boðin til þjónustu hjá Kraftflutningum, fyrirtæki sem býður einnig þjónustu við flutning á bílum og tækjum á höfuðborgarsvæðinu en fyrirtækið var í eigu sonar hans. Taldi Vaka að maðurinn væri þar með aðili að starfsemi í beinni samkeppni við Vöku.

Í bréfinu sagði einnig að vegna alvarleika brotins væri uppsögnin án fyrirvara og að fyrirtækið myndi ekki greiða manninum laun í uppsagnarfresti. Maðurinn yfirgaf vinnustaðinn samstundis.

Í dóminum segist maðurinn hafa unnið hjá Vöku í 44 ár og alla tíð sýnt fyrirtækinu tryggð og trúnað.  Hann hafi átt fimm mánaða uppsagnarfrest og því ekki mátt segja honum upp án fyrirvara. Hann hafnaði því einnig að hafa gerst sekur um alvarlegt trúnaðarbrot. Hann neitaði því að hafa vitað að bifreið hans hafi verið notuð í samkeppni við starfsemi Vöku. Vísaði hann til þess að sonur hans hafi notað bifreiðina jöfnum höndum. Frá því að sonur hans lét af störfum hjá Vökum hafi hann ekki fylgst með því til hvers bifreiðin væri notuð. Einnig hafnaði hann því að bifreiðin hafi verið notuð í samkeppni við starfsemi Vöku því hún sé ekki sérútbúin til björgunar á bifreiðum. Maðurinn sagðist einnig hafa átt rétt á að tala sínu máli áður en ákveðið var að segja honum upp.

Taldi að vinnuveitandi hefði heimild til að víkja starfsmanni úr starfi án fyrirvara

Vaka byggði sína málsvörn á því að samkvæmt reglum vinnuréttar sé almennt talið að vinnuveitandi hafi heimild til að víkja starfsmanni úr starfi fyrirvaralaust hafi hann brotið verulega af sér í starfi. Í slíkum tilvikum skipti ekki máli hversu lengi starfsmaður hafi starfað hjá viðkomandi vinnuveitanda.

Í greinargerð Vöku kom fram að maðurinn hafði unnið sem deildarstjóri dekkjaþjónustu hjá fyrirtækinu og sonur hans hafi verið einn af sex bílstjórum sem voru í bílaflutningum hjá fyrirtækinu. Syni mannsins hafi fyrirvaralaust verið sagt upp starfi sínu í lok desember 2017 þar sem upp hafi komist um þjófnað hans úr fyrirtækinu, sem hann hafi viðurkennt. Þjófnaðurinn hafi verið kærður til lögreglu.

Fram kom að maðurinn hafi verið mjög ósáttur við uppsögn sonarins og lýst þeirri skoðun sinni við fyrirsvarsmenn fyrirtækisins. Eftir að sonur mannsins var rekinn úr starfi hafi hann byrjaði að bjóða þjónustu við bílaflutninga og nýtt sér öll sambönd sem hann hafði haft við viðskiptavini Vöku. Hafi hann stofnað fyrirtækið Kraftflutninga utan um starfsemi sína. Þegar Vaka hafi áttað sig á því að maðurinn væri í beinni samkeppni við sig með syni sínum hafi Vaka ekki komist hjá því að líta það alvarlegum augum.

Í dóminum hafnaði maðurinn því að hafa verið aðili að starfsemi sem væri í beinni samkeppni við Vöku.

Fram kom í dómi héraðsdóms að ekki liggi fyrir sönnun þess að maðurinn hafi vitað að bifreiðin sem um ræðir hafi verið notuð í þágu Kraftflutninga. Maðurinn krafðist einnig miskabóta upp á 1,8 milljónir króna en héraðsdómur hafnaði þeirri kröfu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert