Aðgerðir standa yfir í alla nótt

Frá aðgerðum á vettvangi í kvöld.
Frá aðgerðum á vettvangi í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölmennt lið slökkviliðsmanna hefur í kvöld og nótt barist við mikinn eld sem logar í húsnæði við Hvaleyrarbraut 39 í Hafnarfirði. Aðstæður til slökkvistarfs hafa verið erfiðar enda bálhvasst á svæðinu. Þá er þak hússins fallið auk þess sem sprengingar hafa verið inni í því. 

Varðstjóri hjá SHS segir í samtali við mbl.is að menn hafi verið að reyna að vernda neðri hæð hússins en það hafi reynst þrautin þyngri eftir að þak hússins féll og því miklar líkur á því að það sé ónýtt. 

Tilkynning um eldsvoðann barst kl. 22:12 í kvöld. Fjölmennt lið slökkviliðsmanna fór strax á staðinn og nú eru að minnsta kosti um 60 manns á vettvangi og fjórir dælubílar. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Eldurinn kviknaði í húsnæði glugga- og hurðasmiðjunni SB og er mikill eldsmatur í húsinu, s.s. timbur og málningarvörur. 

Að sögn varðstjórans hefur engan sakað. Þá hefur eldurinn ekki náð að breiða úr sér í nærliggjandi hús. Þó það sé hvasst, þá sé vindáttin hagstæð hvað það varðar. 

Ljóst er að aðgerðir slökkviliðsins munu standa yfir í alla nótt. Von er á öflugri vinnuvél með krabba frá Furu á staðinn, sem verður notuð til að aðstoða við slökkvistarfið. M.a. til að fjarlægja allt lauslegt sem er fyrir slökkviliðsmönnunum og torveldar því aðgerðir á vettvangi. 

Iðnaðarhúsnæðið, sem var byggt árið 1993, er samtals yfir 2.000 fermetrar að stærð. Eldsupptök eru ókunn. 

Uppfært kl. 01:30

Aðstæður á vettvangi eru orðnar viðráðanlegri og nú á öðrum tímanum var byrjað að huga að því að fækka slökkviliðsmönnum á vettvangi. Slökkvistarf mun þó halda áfram í alla nótt auk þess sem krabbinn aðstoðar við að flytja bárujárn og aðra lauslega muni frá húsinu til að auðvelda mönnum að athafna sig á svæðinu. Líklegt þykir að húsið sé ónýtt og allt sem brunnið gat hafi orðið eldinum að bráð. 

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert