Húsið að mestu leyti ónýtt

Lítið er eftir af Hvaleyrarbraut 39 nema steinsteyptir veggir.
Lítið er eftir af Hvaleyrarbraut 39 nema steinsteyptir veggir. mbl.is/Hari

Húsnæði við Hvaleyrarbraut 39 í Hafnarfirði er nánast alveg ónýtt eftir að eldur kom þar upp í gærkvöldi, að sögn Eyþórs Leifssonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. „Það er spurning með þessa steyptu veggi, hvort þeir geti haldið sér, en húsið er annars að mestu ónýtt og þetta er mikið eignatjón.“

Slökkvistarf er enn í fullum gangi en Eyþór vonar að hægt verði að kæfa allar glæður í dag. „Það logar í glæðum þarna á neðri hæðinni og það er bara verið að reyna að komast að þessu, verið að hreinsa brak og dót í burtu sem liggur ofan á glæðum. Slökkvistarfið heldur ábyggilega áfram í allan dag. Þetta er stórt og mikið hús og mikill eldsmatur í því.“

Erfitt hefur reynst að ráða niðurlögum eldsins. „Þetta er stórt og flókið mál. Það er verið að hemja járnið svo það fjúki ekki í burtu. Það þarf einhvern veginn að setja járnið niður í gáma og þetta er bara tímafrekt starf. Þegar eldur nær sér upp á þetta stig sem hann komst á þarna í gær þá er erfitt að hemja hann, því miður,“ segir Eyþór.

Aðspurður segir Eyþór vont veður gera það að verkum að það sé enn erfiðara en ella að slökkva eldinn. „Það er náttúrulega búið að vera rigning og rok og það er ekkert að hjálpa. Vindurinn blæs upp í öllum glóðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert