Kastar handsprengjum á ríkisstjórnarheimilið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði ekki rétt að Miðflokkurinn …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði ekki rétt að Miðflokkurinn hefði tekið u-beygju í afstöðu sinni til þriðja orkupakkans. mbl.is/Þorgeir

Miðflokkurinn er að reyna að kasta handsprengjum inn á ríkisstjórnarheimilið að mati Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar. Sagði Logi í þættinum Víglínunni á Stöð 2 að afstaða Miðflokksins til þriðja orkupakkans væri poppúlísk. Málið væri stormur í vatnsglasi.

 „Við Íslendingar þekkjum það ágætlega að þegar við höfum ekki verið í góðum samskiptum við okkar nágranna og stundað frjáls viðskipti og frjálsa för, að þá hefur okkur vegnað verst. Ég held að Sigmundur væri miklu heilli í því, í stað þess að reyna núna að kasta handsprengju inn á ríkisstjórnarheimilið, að reyna bara frekar að taka umræðu um EES-samninginn í heild sinni upp,“ sagði Logi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, svaraði því til að í hvert skipti sem reynt sé að standa vörð um fullveldið sé því haldið fram að með því sé verið að stunda einangrunarhyggju.

„Að sjálfsögðu eigum við að vera í miklum og góðum samskiptum og viðskiptum við önnur lönd, en við verðum að gera það á eigin forsendum sem fullvalda ríki,“ sagði hann. Það sé stóri gallinn við orkupakkann. „Þar er verið að gefa eftir. Röksemd Evrópusambandsins sé að verið sé að gera þetta fyrir neytendur. En svo er traðkað á almenningi og jafnvel stjórnvöldum  allra ríkja nema Frakklandi og Þýskalandi.“

„Af hverju gerðu þið ekki athugasemdir þá?“

Sagði Sigmundur Davíð ESB vera að færa sig upp á skaftið innan EES-samkomulagsins.  

„Hvaða nýju fréttir eru varðandi þriðja orkupakkann sem lágu ekki fyrir allan þann tíma sem þú  og Gunnar Bragi stýrðu landinu?“ spurði Logi. Þeir hafi komist að þeirri niðurstöðu að innleiðing orkupakkans ætti heima í EES-samningnum. „Af hverju gerðu þið ekki athugasemdir þá?“

Sigmundur Davíð sagði Gunnar Braga víst hafa gert athugasemdir til ESB um að ekki væri hægt að samþykkja pakkann eins og hann var þá að þróast. „Við fórum fram á undanþágu,“ segir hann. Það sé því ekki rétt að hann hafi tekið u-beygju í afstöðu sinni til málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert