Koma þurfi á fót upplýsingamiðstöð

Fjölmenningarþingið var haldið í fimmta sinn í dag.
Fjölmenningarþingið var haldið í fimmta sinn í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Auka þarf upplýsingaflæði og tryggja að innflytjendur fái fréttir af innlendum vettvangi, til að efla lýðræðisþátttöku fólks af erlendum uppruna. Þetta er meðal þess sem fram kom í umræðum á fjölmenningarþingi Reykjavíkurborgar, sem haldið var í fimmta sinn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.

Bent var á að koma þurfi á fót upplýsingamiðstöð í samvinnu ríkis og sveitarfélaga, og ábyrgð á því verkefni skýrð.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg er markmiðið með þinginu að stofna til samtals um málefni íbúa af erlendum uppruna og stuðla þannig að bættri þjónustu Reykjavíkurborgar, en alls búi um það bil 18.000 íbúar af erlendum uppruna í borginni.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður mannréttinda- og lýðræðisráðs borgarinnar, setti þingið í morgun.

Að lokinni setningu hófst hópavinna í sex málstofum þar sem rætt var um málefni sem eru í brennidepli varðandi fjölmenningu. Fulltrúar hagsmunasamtaka komu að undirbúningi og tóku þátt í málstofunum.

Ekki nóg að fræða aðeins þá fullorðnu

Í málstofu þar sem rætt var um fötluð börn af erlendum uppruna mun hafa komið fram að skortur á leiðbeiningum valdi því að oft skapist erfiðleikar við að fá þá þjónustu sem fólk á rétt á samkvæmt lögum. 

Unglingar af erlendum uppruna munu þá hafa rætt um félagslega þátttöku og vellíðan í samfélaginu. Þar hafi komið fram að það þörf sé á fræðslu um fjölmenningu fyrir nemendur í skólum svo þau átti sig betur á þeim breytingum sem eru að verða á samfélaginu. Ekki sé nóg að fræða aðeins fullorðna fólkið.

Í hópavinnu, þar sem starfsfólk Reykjavíkurborgar af erlendum uppruna ræddi saman um samskipti á vinnustað, kom fram að gera þurfi ítarlegar starfslýsingar til þess að koma í veg fyrir misskilning sem aftur veldur óöryggi í samskiptum.

Í umræðu um #metoo-átakið kom fram að konur af erlendum uppruna vildu að sérstaða hópsins í samfélaginu væri viðurkennd þegar rætt sé um áreitni og kynferðislegt ofbeldi. Þær vilji vera þátttakendur í þeirri mikilvægu vakningu sem #metoo sé og að tekið sé mið af þeirra reynsluheimi. 

Að því er fram kemur í tilkynningu verður unnið úr niðurstöðum þingsins og þær kynntar fyrir nefndum, ráðum og borgarstjórn með það fyrir augum að gera þjónustu Reykjavíkurborgar við fólk af erlendum uppruna enn betri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert