Sé ekki eftir neinu

Jónas R. Jónsson á fiðluverkstæði sínu.
Jónas R. Jónsson á fiðluverkstæði sínu. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég sakna einskis og sé ekki eftir neinu. Ég er bara sú týpa. Eflaust hefði einhvers staðar mátt gera eitthvað öðruvísi en það skiptir engu máli í dag,“ segir Jónas R. Jónsson, söngvari og fiðlusmiður, en hann er sjötugur í dag, laugardag.

„Mér er alltaf minnisstæð myndin um bandaríska njósnarann sem dæmdur var til dauða í Austur-Þýskalandi á tímum kalda stríðsins. Þegar lögmaðurinn hans spurði hvort hann hefði ekki áhyggjur af aftökunni svaraði njósnarinn: Myndi það hjálpa? Hvers vegna að burðast með farangur sem gerir ekkert gagn. Það þyngir mann bara.“

Og honum finnst hann ekki gamall. „Þegar ég var ungur og Bítlarnir sungu „When I’m 64“ fannst mér það alveg rosalega hár aldur og langt í burtu. Hélt að ég yrði aldrei svo gamall. Í dag, á þessari stafrænu öld, er þetta enginn aldur. Sjötíu í analóg er ekki sama og sjötíu í digital. Og hugsaðu þér alla þekkinguna, upplýsingarnar og tækifærin sem unga fólkið býr að í dag sem við höfðum ekki í gamla daga. Ungt fólk í dag er miklu klárara en við höfðum nokkurn tíma möguleika á að verða – sem veit á gott fyrir framtíðina.“

Jónas hefur lokað fiðluverkstæði sínu á Óðinsgötunni og er fluttur til Portúgals ásamt eiginkonu sinni.

Jónas aðstoðar ungan fiðlara frá Lithaén sem kom til hans …
Jónas aðstoðar ungan fiðlara frá Lithaén sem kom til hans með brotinn boga. mbl.is/Árni Sæberg

„Konan mín hætti að vinna um síðustu áramót og fyrir löngu ákváðum við að eyða síðasta æviskeiðinu í sól og hlýju. Við höfum verið að undirbúa þetta og valið stóð milli Spánar og Portúgals og varð síðarnefnda landið fyrir valinu. Fyrst vorum við að gæla við Cascais-svæðið vestur af Lissabon. Þar er stutt inn í borgina sem er mjög falleg og spennandi. Borgin er byggð í hæðum og svolítið erfið yfirferðar. Portúgal er svolítið á eftir á ýmsa lund og það meina ég í jákvæðri merkingu. Við komumst hins vegar að því að kuldinn þarna fer niður fyrir okkar þolmörk á veturna og fyrir vikið tókum við stefnuna á Suður-Portúgal, Faro – Vilamoura. Þar er dásamlegt að vera. Hlýtt á veturna og fullt af golfvöllum. Verst að hvorugt okkar spilar golf, en hver veit – kannski.“

Hann hlær.

Hjónin hafa ekki alfarið sagt skilið við Ísland en meiningin er að dveljast hér heima á sumrin og fara í hestaferðir. Þau munu halda húsnæði sínu, alltént til að byrja með. Hér er fjölskyldan og vinir. Jónas hugleiddi að halda einnig húsnæðinu undir verkstæðið en komst að raun um að það svaraði ekki kostnaði. „Gaman hefði verið að afhenda öðrum fiðlusmiði verkstæðið en þeim er ekki til að dreifa hér á landi. Það eru bara tveir aðrir og þeir eru með sín verkstæði.“

Hann er þó ekki alveg sestur í helgan stein. „Ég tek með mér nokkrar fiðlur út sem ég á eftir að klára að gera við. Dunda mér við það í rólegheitunum í sólinni. En vinur minn Andrés í Tónastöðunni ætlar að taka fiðlurnar mínar í sölu.“

Nánar er rætt við Jónas í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en blaðið heimsótti hann á fiðluverkstæðið rétt áður en hann rifaði seglin.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert