Skorti ekki vatn heldur þrýsting

Það er þekkt staða að sveitarfélög þurfi aðstoð nágrannasveitarfélaga við …
Það er þekkt staða að sveitarfélög þurfi aðstoð nágrannasveitarfélaga við að halda uppi vatnsþrýsingi við slökkvistarf. mbl.is/Hari

Vatnsveita Hafnarfjarðar þurfti á auka vatnsþrýstingi að halda vegna slökkvistarfs á Hvaleyrarbraut en þar varð stórbruni í gærkvöldi. Þrýstinginn fékk vatnsveitan frá Garðabæ.

Jón Guðmundsson, vaktmaður hjá Vatnsveitu Hafnarfjarðar, segir að vatnsveitan hafi ekki þurft á meira vatni að halda eins og kom fram í frétt Vísis í nótt. 

„Þetta er ekki beint vegna vatnsbirgða, þær skorti ekki. Það er þannig að þegar fullt af slökkviliði kemur og tengir saman brunahana sjúga þeir vatnið og það verður svo mikið þrýstingsfall að við þurfum í raun þrýsting frá öðrum.“

mbl.is/Hari

Jón bendir á að sama staða hafi komið upp þegar eldur kom upp í Miðhrauni í sumar. „Það var alveg sama þegar stóri bruninn varð í sumar inni í Miðhrauni, þá varð Hafnarfjörður að gefa Garðabæ þrýsting.“

Það er algengt að sveitarfélög aðstoði hvort annað við að halda nægum þrýstingi, að sögn Jóns. „Þetta er þekkt. Sveitarfélögin eru samtengd og þegar eitthvað svona gerist og slökkviliðið fer að totta leiðslurnar þá þurfum við að fá aðstoð frá öðrum til þess að halda uppi þrýstingi.“

Aðspurður segir Jón að það sé ekki mögulegt að koma í veg fyrir það að sveitarfélög þurfi á auka þrýstingi að halda í aðstæðum sem þessum. „Þetta er í raun ekkert vandamál, þetta er bara eðlilegt og það er ekki hægt að koma í veg fyrir svona. Sveitarfélögin eru stór, þetta eru langar og miklar lagnir út um allt og þegar slökkvilið ræðst á eitthvert svæði og fer að sjúga það þá verður eðlilega þrýstingsfall. Þá er ástæða til að bjarga því með þessum hætti.“

Það er því enginn vatnsskortur í Hafnarfirði vegna brunans. „Það er stór tankur hérna uppi í hlíðinni sem er mikið af vatni í. Þetta eru langar leiðslur og í mörgum hlykkjum og það verður þrýstingsfall við allar beygjur og þá er gott að fá svona auka trukk frá öðrum. Þetta var ekki nema lítið sem við þurftum að fá frá Garðabæ til þess að halda uppi góðum þrýsting,“ segir Jón. 

mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert