Rannsókn hafin á upptökum eldsins

Lítið er eftir af húsinu við Hvaleyrarbraut nema útveggirnir.
Lítið er eftir af húsinu við Hvaleyrarbraut nema útveggirnir. mbl.is/​Hari

„Menn eru núna  að gera sig klára til að fara í þessa vettvangsvinnu í birtingu,“ segir Skúli Jónsson stöðvarstjóri á lögreglustöðinni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við mbl.is.

Rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði og tæknideild lögreglu munu sjá um rannsóknina og segist Skúli gera ráð fyrir að lögregla verði að störfum á staðnum í allan dag.

Lögregluvakt var í alla nótt á Hvaleyrarbraut 39 sem varð illa úti í bruna um helgina, en lögregla fékk brunavettvanginn afhentan um kvöldmatarleytið í gær eftir að slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu tókst að ráða niðurlögum eldsins tæpum tveimur sólarhringum eftir að tilkynning um hann barst.

Eld­ur­inn kviknaði á efri hæð Hval­eyr­ar­braut­ar 39 á ell­efta tím­an­um á föstu­dags­kvöld þar sem harðviðar­verk­stæði var til húsa. Það var svo klukkan 19.10 í gærkvöldi sem slökkvilið lauk störfum á vettvangi og afhenti lögreglu staðinn.

Lögregla hefur rannsókn á upptökum eldsins nú í birtingu.
Lögregla hefur rannsókn á upptökum eldsins nú í birtingu. mbl.is/​Hari

Elds­mat­ur húsinu var tals­verður og hvassir vindstrengir blésu upp í öll­um glóðum sem gerði slökkvistarf erfitt. Krabb­i var feng­inn frá Furu um tíma til að aðstoða við að flytja báru­járn og aðra laus­lega muni frá hús­inu til að auðvelda slökkviliðsmönnum störf sín. Hreinsa þurfti efri hæðina þar sem harðviðarverkstæðið var til húsa að mestu burt og stendur nú lítið eft­ir af hús­inu nema nokkr­ir stein­steypt­ir vegg­ir. 

Reykinn mátti enn sjá langt að seinni partinn í gær.
Reykinn mátti enn sjá langt að seinni partinn í gær. mbl.is/​Hari

Spurður hvort ekki verði erfitt að greina eldsupptökin þegar grípa hafi þurft til svo róttækra aðgerða, segir Skúli það gefa auga leið að það geri verkið erfiðara. „Það verður svo bara að koma í ljós þegar menn skoða þetta [hvort hægt verði að greina eldsupptök], það er ekkert hægt að segja til um það fyrirfram.“

Lengi logaði í glæðum í húsinu og síðdegis í gær …
Lengi logaði í glæðum í húsinu og síðdegis í gær gerði slökkviliðið lokaáhlaup að því að ráða niðurlögum eldsins. Starfi þeirra lauk um sjöleytið í gærkvöldi. mbl.is/​Hari
Slökkviliðsmenn að störfum við Hvaleyrarabraut.
Slökkviliðsmenn að störfum við Hvaleyrarabraut. mbl.is/​Hari
Mikill og svartur reykur var í húsinu.
Mikill og svartur reykur var í húsinu. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert