Ungbörn fjórðungur þeirra í garðinum

Hluti af Víkurgarði árið 1912 eða 1913. Tekin í garði …
Hluti af Víkurgarði árið 1912 eða 1913. Tekin í garði Peter Oluf Christensen apótekara og konu hans Önnu Henriette. Tæplega öld áður voru um 600 grafnir í garðinum. Ljósmynd/Lyfjafræðisafnið

Fyrir um 200 árum dó um fjórðungur allra barna hér á landi áður en þau náðu eins árs aldri. Með nokkrum veigamiklum breytingum þegar kemur að hreinlæti og næringu breyttist þetta hins vegar mikið á síðari hluta 19. aldar sem og á 20. öldinni. Í dag er tíðni ungbarnadauða um 0,2% hér á landi, en það er með því allra lægsta sem finna má í heiminum. Þessi gífurlega háa tíðni fyrri tíma kemur vel í ljós nú þegar umræða um Víkurgarð er komin í hámæli.

Garðurinn hefur verið til umfjöllunar undanfarið vegna fyrirætlana um að byggja þar hótel. Deilt er um hvort hótelið muni ná inn á það svæði þar sem garðurinn var. Vegna þessa var efnt til mótmæla og gjörnings í gær þar sem garðurinn var áður og voru meðal annars lesin upp nöfn þeirra 600 Reykvíkinga sem voru grafnir þar á árunum 1817 til 1838. Þau ár sem tíðnin var sem hæst fór hún yfir 50%. Nokkrum árum síðar, eða 1846, náði tíðni ungbarnadauða hámarki hér á landi í mislingafaraldri, en þá var tíðnin 65,4%.

163 af 600

Með tilkynningu um mótmælin fylgdi listi með nöfnum þeirra sem þar voru grafnir, auk jarðsetningardags og aldurs. Mikill fjöldi ungbarna var á listanum og þegar málið er skoðað nánar sést að 163 af þeim 600 sem þar eru skráðir voru ungbörn (flokkuð sem 1 árs eða yngri). Það jafngildir 27,2% allra sem grafnir voru í garðinum, eða einum af hverjum 3,7.

Ólöf Garðarsdóttir, prófessor í félagssögu, skrifaði doktorsritgerð sína um ungbarnadauða á Íslandi á árunum 1770-1920. Í samtali við mbl.is segir hún að fjöldi ungbarna sem jörðuð eru í garðinum komi ekki mikið á óvart, þó að fjöldinn sé reyndar yfir meðaltali þessa tíma. Hún segir ungbarnadauða ekki hafa farið að lækka fyrr en á árunum 1860/70 til 1900. Nefnir hún að um aldamótin hafi landlæknir skrifað um þau tímamót að hlutfallið væri komið undir 10% og að ólíklegt væri að hægt væri að gera betur. Hlutfallið hélt þó áfram að lækka hratt og á níunda áratugnum var það komið undir 1% og er sem fyrr segir í dag um 0,2%.

Ísland, Normandí og Bæjaraland skera sig úr

Lengi hefur verið talið að brjóstagjöf hafi leikið stórt hlutverk í þessari jákvæðu þróun, en Ólöf segir að það sé aðeins einn angi þess hvernig til tókst. Við vinnslu á doktorsrannsókn sinni hafi hún meðal annars komist að því að ungbarnadauði hér á landi, í Normandí í Frakklandi og í Bæjaralandi í Þýskalandi hafi verið nokkuð hærri í landbúnaðarhéruðum heldur en í þéttbýli. Fólk hafi almennt viljað gefa ungum börnum það besta sem til var og á þessum tíma og í dreifbýli var það kúamjólk, rjómi og smjör. Allt þetta var mun feitara en móðurmjólkin og nýru barnanna réðu illa við þessa feitu fæðu. Hér á landi hafi börnum snemma verið gefin kúamjólkin, „enda það besta sem til var í kotinu“ á þeim tíma að sögn Ólafar.

Ungbarnadauði er víða í heiminum enn á bilinu 5-10%, en …
Ungbarnadauði er víða í heiminum enn á bilinu 5-10%, en Ísland komst undir 10% markið um aldamótin 1900. AFP

Þetta hafi meðal annars vakið athygli hennar, enda hafi ungbarnadauði víðast hvar áður fyrr og í fátækari ríkjum heims í dag verið mestur í þéttbýli þar sem óhreinindi voru jafnan meiri og minna um rennandi vatn.

Þá segir Ólöf að ólíklegt sé að breyting á brjóstagjöf hafi gengið jafnhratt í gegn og áður var áætlað og að annar stór áhrifavaldur í þessari miklu lækkun ungbarnadauða á síðari hluta 19. aldar hafi verið aukið hreinlæti. Segir hún að þetta atriði hafi í raun ráðið úrslitum. Þannig hafi verið byrja að gefa ungbörnum óblandaða mjólk og þau ílát sem mjólkin var sett í hafi verið þrifin. „Þetta hafði mikil áhrif,“ segir Ólöf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert