Flutti jómfrúarræðu sína

Ragna Sigurðardóttir.
Ragna Sigurðardóttir. Ljósmynd/Aðsend

Ragna Sigurðardóttir, 2. varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík og fyrrverandi formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, flutti jómfrúarræðu sína í borgarstjórn í kvöld í umræðum um tillögur stýrihóps um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

„Í umræðum á undan hafði, auk tillögunnar sjálfrar, verið rætt um lög sem voru samþykkt árið 2012 um lengingu fæðingarorlofsins en síðan dregin til baka af þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins árið 2013. Lengd fæðingarorlofs hefur staðið óbreytt síðan,“ segir í tilkynningu frá Samfylkingunni.

Þar kemur fram að aðgerðir undanfarið hafa snúið að því að bæta starfsumhverfi leikskólanna, bæta við nýjum leikskóladeildum, byggja nýja leikskóla og bæta mönnunina sem nú stendur í 98%.

Í ræðu sinni talaði Ragna um að árið 1994 hafi 30% barna á leikskólaaldri verið með leikskólapláss í Reykjavík. Árið 2002 hafi 80% barna á leikskólaaldri verið komin með leikskólapláss í borginni eftir tvö kjörtímabil Reykjavíkurlistans. Núna sé hlutfallið komið í yfir 90% sem sé mun hærra en í nágrannalöndunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert