Freista þess að flytja félagana heim

Kristinn Rúnarsson og Þorsteinn Guðjónsson.
Kristinn Rúnarsson og Þorsteinn Guðjónsson. mbl.is

Fjallaleiðsögumaðurinn Leifur Örn Svavarsson er á leið til Nepal þar sem hann mun kanna möguleika á að flytja jarðneskar leifar þeirra Kristins Rúnarssonar og Þorsteins Guðjónssonar niður úr fjallinu Pumori og til höfuðborgarinnar Katmandú.

Þar er ráðgert að aðstandendur taki við og annist nauðsynlegar ráðstafanir fyrir flutning þeirra heim til Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum Kristins og Þorsteins sem send var fjölmiðlum nú fyrir hádegi.

„Aðstandendur Kristins Rúnarssonar og Þorsteins Guðjónssonar, sem fórust í október 1988 við fjallgöngu á fjallinu Pumori í Nepal, hafa þegið boð Leifs Arnar Svavarssonar, hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, um að Leifur fari að þeim stað sem talið er að jarðneskar leifar þeirra séu nú staðsettar, í um 5.500 metra hæð. Staðurinn er talinn nægilega aðgengilegur þannig að Leifi og öðrum er ekki talin hætta búin, enda er aðstandendum öryggi þeirra hugleikið,“ segir í tilkynningu aðstandenda.

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins, alþjóðadeild og kennslanefnd ríkislögreglustjóra hafa aðstoðað aðstandendur við skipulagningu aðgerðanna.

Nokkur tími mun líða þar til ljóst verður hvort takmarki ferðarinnar verði náð, en aðstandendur þakka þann hlýhug sem þeir hafa fundið fyrir vegna málsins.

Vegna fyrirspurna um hvernig megi aðstoða hafa aðstandendur stofnað styrktarreikning í nafni Kristins Steinars Kristinssonar, kt. 310389-2939, nr. 0370-13-004559.

Pumori er 7.161 metra hár tindur í Nepal en þrír …
Pumori er 7.161 metra hár tindur í Nepal en þrír Íslendingar hafa farist á fjallinu. Wikipedia/Philip Ling
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert