Mun kanna hvort um fjárkúgun sé að ræða

Helga Jónsdóttir, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
Helga Jónsdóttir, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórn Orkuveitunnar hefur falið Helgu Jónsdóttur, starfandi forstjóra OR, að fara yfir alla skýrsluna og gera tillögur um meðferð einstakra þátta sem fjallað er um í skýrslunni og leggja til viðeigandi málsmeðferð.

„Ég mun fara yfir það allt saman og gera mínar tillögur til stjórnarinnar en mun ekki tala um það við neinn annan fyrr en ég er búin að afgreiða þær til stjórnarinnar,“ segir Helga í samtali við mbl.is.

Meðal þátta sem hún mun skoða er tölvupóstur Einars Bárðarsonar, eiginmanns Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, sem hann sendi stjórnendum OR. Þar krefst hann tveggja ára launa til Áslaug­ar sem miska- og rétt­læt­is­bóta vegna upp­saagn­ar henn­ar. Í lok bréfs­ins seg­ir hann að hægt sé að „klára málið okk­ar á milli“ eða fleir­um verði blandað í málið og fer hann fram á svar innan ákveðinna tímamarka.

Útilokar ekki að kæra verði lögð fram

Helga sagði í gær að hún hafi upplifað tölvupóstinn sem hótun en að ekki hafi verið tekið ákvörðun innan stjórnenda eða stjórnar OR um hvort fyrirtækið muni grípa til aðgerða vegna krafna Einars. Aðspurð hvort fyrirtækið líti jafnvel á póstinn sem hótun segir Helga að hún muni kanna það í yfirferð sinni. „Ég mun vitaskuld athuga það.“ Þá útilokar hún ekki að kæra vegna ummæla Einars verði lögð fram. 

Helga hefur ekki náð að fara yfir skýrsluna í heild sinni en stefnir á að ljúka því sem fyrst og hefja gerð tillagna sem hún mun síðan leggja fyrir stjórn OR. Það verður líklega hennar síðasta verk í starfi forstjóra en Bjarni Bjarnason snýr aftur til starfa á þriðjudaginn í næstu viku.

Á fimmtudaginn fer fram vinnudagur í fyrirtækinu með öllu starfsfólkinu. „Það er afskaplega öflugt bakland í starfsfólkinu og það kann kannski betur skil á því hvernig bregðast á við einstökum ábendingum til þess að beina þeim í réttan farveg. Á fundinum munum við leggja heilana sameiginlega í bleyti um það hvernig þetta geti orðið gagnlegast fyrir breytingar á ferlum hjá okkur, því að þessi vinna er ekki sett af stað til annars en að hún gagnist til þess að gera umbætur þar sem að einhverjar brotalamir eru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert