Stækka hálfklárað stórhýsi vegna eftirspurnar

Byggð var inndregin þakhæð á austurhluta hússins. Áform eru um …
Byggð var inndregin þakhæð á austurhluta hússins. Áform eru um að stækka þakhæðina til vesturs. Húsið rúmar mörg fyrirtæki. mbl.is/Árni Sæberg

Skipulagsyfirvöld í Kópavogi hafa auglýst tillögu að breyttu deiliskipulagi í Urðarhvarfi 8. Gerir hún ráð fyrir að inndregin þakhæð verði stækkuð til vesturs um 350 fermetra.

Tvennt vekur athygli við umsóknina. Annars vegar er húsið ekki fullbyggt og hins vegar er það ein stærsta skrifstofubygging landsins. Hún er um 16.500 fermetrar og að auki með um 9 þúsund fermetra bílageymslu. Til samanburðar er Norðurturninn við Smáralind í Kópavogi rúmir 18 þúsund fermetrar.

ÞG Verk hóf smíði hússins árið 2006 en gerði hlé á framkvæmdum 2008. Íslandsbanki eignaðist húsið í skuldauppgjöri 2011 og eignaðist verktakafyrirtækið Þingvangur svo húsið. ÞG Verk keypti bygginguna aftur sl. vor og hyggst afhenda fyrstu leigutökum rými þar næsta sumar.

Í umfjöllun um áform þessi í Morgunblaðinu í dag segir Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verk,  eftirspurn eftir rými í húsinu eiga þátt í áformum um að stækka efstu hæðina. Þaðan er útsýni yfir Víðidalinn og út á sundin.

Þorvaldur segir aðspurður að veiking krónu og vaxta- og launahækkanir muni að óbreyttu ýta undir byggingarkostnað íbúða.

„Þetta eru liðir sem hafa bein áhrif á byggingarkostnað. Ég tel óhjákvæmilegt að það skili sér út í íbúðaverðið. Það er hætt við að við munum sjá einhverjar hækkanir. Hins vegar er íbúðamarkaðurinn að ná jafnvægi. Við höfum ekki séð verðhækkanir lungann af þessu ári. Ég held að það megi segja sem svo að markaðurinn sé að leiðrétta sig og ná ákveðnu jafnvægi,“ segir Þorvaldur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert