Sýknudómar í stóra skattsvikamálinu

Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að málin hefðu verið fyrnd …
Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að málin hefðu verið fyrnd áður en ákæra var gefin út. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur sýknaði fyrir helgi karl og konu í umfangsmiklu skattsvikamáli sem kom upp fyrir átta árum, eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að brotin hafi verið fyrnd þegar að ákæra var gefin út í málinu í mars 2016. Héraðsdómur hafði áður sakfellt fólkið fyrir peningaþvætti af gáleysi og gert þeim 4 mánaða skilorðsbundinn dóm.

Landsréttur staðfesti hins vegar dóma héraðsdóms frá því í fyrra yfir þremur öðrum sakborningum í málinu, en málið vakti mikla athygli á sínum tíma. Átta voru þá ákærðir og var meirihluti fjárins, 278 milljónir, sem fólkið var grunað um að hafa svikið út afhentur ótilgreindum manni sem var ekki í hópi sakborninganna. Brotin voru framin á árunum 2009-2010 og var fólkið var ákært fyr­ir að hafa notað sýndarfyrirtæki til að svíkja fé út úr rík­is­sjóði í gegn­um virðis­auka­skatt­s­kerfið. 

Þyngsta dóminn fyrir héraðsdómi fékk Hall­dór Jörgen Gunn­ars­son, fyrr­ver­andi starfsmaður rík­is­skatt­stjóra. Var hann dæmd­ur í fjög­urra ára fang­elsi vegna aðild­ar sinn­ar að mál­inu, en Stein­grím­ur Þór Ólafs­son, sem var álitinn höfuðpaurinn, fékk tveggja ára og sex mánaða fang­elsi. Aðrir dómar voru vægari, en allir voru þó skilorðsbundnir vegna mikilla tafa í meðferð málsins.

Kunnugt um að féð væri illa fengið

Maðurinn og konan, sem Landsréttur sýknaði fyrir helgi, höfðu líkt og áður sagði verið sakfelld fyrir peningaþvætti af gáleysi í héraði. Höfðu þau bæði gerst prókúruhafar af bankareikningum eignarhaldsfélags gegn greiðslu. Átti konan að hafa tekið við tæpum 36 milljónum og haldið í sinni vörslu þrátt fyrir að vera ljóst að féð væri illa fengið, en maðurinn hafði tekið við tæpum 18 milljónum.

Í dómi Landsréttar kemur fram að hafið sé yfir vafa að fólkið hafi vitað að peningarnir væru illa fengnir. Ákæra hafi hins vegar ekki verið gefin út fyrir en rúmum sex árum frá síðasta broti, en fyrningarfrestur brotanna sé fimm ár og því séu þau sýknuð.

Skilorðsbundinn dómur yfir þremur öðrum sakborningum í málinu, sem höfðu hlotið dóma frá þremur og upp í 18 mánuði, var hins vegar staðfestur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert