600 mál á ári vegna heiðurstengdra átaka

Farrah Parveen Ghazanfar og Katarina Sirris Karantonis starfa í þverfaglegu …
Farrah Parveen Ghazanfar og Katarina Sirris Karantonis starfa í þverfaglegu þekkingar- og fræðsluteymi sem vinnur um allan Noreg og sinnir fræðslu, ráðgjöf og handleiðslu í einstökum málum sem tengjast heiðurstengdum átökum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alisha er 18 ára stúlka, fædd í Pakistan en uppalin í Noregi og með norskan ríkisborgararétt. Síðasta sumar fór hún í heimsókn til stórfjölskyldunnar í Pakistan ásamt nánustu fjölskyldu. Alisha sneri ekki til baka til Noregs um haustið líkt og fjölskyldan heldur var hún skilin eftir hjá ættingjum, vegabréfslaus, símalaus og allslaus. Af hverju? Til að giftast frænda sínum.

Alisha er hrædd en veit að með þessum gjörðum, það er að hneppa hana í nauðungarhjónaband, vilja foreldrar hennar halda uppi heiðri fjölskyldunnar. En Alisha veit að hún getur leitað sér hjálpar. Einu sinni í viku fær hún leyfi til að fara út úr húsi á markaðinn og kaupa í matinn. Hún nýtti tækifærið og hringdi í norska sendiráðið í Islamabad þar sem hún fær samband við ráðgjafa sem aðstoðar hana við að komast aftur heim til Noregs.

Ástæðan fyrir því að Alisha gat leitað sér hjálpar er að í Noregi starfar þverfaglegt þekkingar- og fræðsluteymi, sem sinnir málum sem tengjast heiðurstengdum átökum, líkt og Alisha þurfti að takast á við. Tveir starfsmenn fræðsluteymisins, Farrah Parveen Ghazanfar og Katarina Sirris Karantonis, kynntu starf teymisins og röktu sögu Alishu á ráðstefnu í dag sem haldin var á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Kvennaathvarfsins.

Ungmennum af erlendum uppruna í Noregi og víðar á Norðurlöndunum …
Ungmennum af erlendum uppruna í Noregi og víðar á Norðurlöndunum getur reynst erfitt að finna jafnvægi í samskiptum við fjölskylduna annars vegar og í samfélaginu hins vegar. Myndin er fengin úr bæklingi á vegum norska fræðsluteymisins sem sinnir málum sem tengjast heiðurstengdum átökum. Ljósmynd/Aðsend

Þegar heiðurinn skiptir öllu máli

Birtingarmyndir heiðurstengdra átaka eru margvíslegar, svo sem þrýstingur, ógnanir, þvinganir og ofbeldi, oft af hálfu ættingja. Algengast er að konur og börn frá löndum þar sem heiður fjölskyldunnar er tengdur hegðun hennar eða hafður í hávegum séu beitt ofbeldi af þessu tagi til að tryggja að viðkomandi hegði sér í samræmi við hefðir fjölskyldunnar og nærsamfélagsins. Sú var raunin í tilfelli Alishu en þökk sé fræðsluteyminu fékk hún viðeigandi aðstoð, fyrst frá sendiráðinu sem hafði samband við fræðsluteymið í Noregi sem hafði samband við ráðgjafa í framhaldsskólanum í Ósló sem Alisha stundar nám við.

Sérstakir ráðgjafar fyrir ungmenni sem tilheyra minnihlutahópum eru hluti af fræðsluteyminu og starfa í 30 framhaldsskólum í Noregi þar sem þörfin þykir mest. Alisha ræddi við ráðgjafann í sínum skóla fyrir sumarfrí og deildi með honum áhyggjum af að hún gæti hugsanlega verið hneppt í nauðungarhjónaband. Mögulegt hjónaband hafði ekki verið til umræðu innan fjölskyldunnar en Alisha var með óþægilega tilfinningu fyrir heimsókninni til heimalandsins.

Ráðgjafinn þekkti sögu Alishu og kom henni áleiðis til sendiráðsins og voru aðstæður hennar metnar það alvarlegar að sett var af stað sameiginleg aðgerðaáætlun sendiráðsins, fræðsluteymisins og lögreglu til að koma henni aftur til Noregs. Við komuna til Óslóar tók lögreglan á móti Alishu og fór með hana til teymisins sem tók ákvarðanir varðandi hvers konar utanumhaldi hún þurfti á að halda, til dæmis hvað varðaði húsnæði, heilbrigðisþjónustu og sálfræðiaðstoð. Í tilfelli Alishu var henni útvegað öruggt húsnæði á vegum teymisins þar sem hún getur dvalið í allt að níu mánuði og fékk hún aðstoð til að takast aftur á við hið daglega líf.

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar (t.h.), setti …
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar (t.h.), setti ráðstefnuna og hana sat einnig Ragna Björg Guðbrandsdóttir, verkefnastjóri Bjarkarhlíðar (fyrir miðju). mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan gerir sér oft ekki grein fyrir alvarleikanum

Fræðsluteyminu var komið á fót árið 2004 en hefur starfað í núverandi mynd frá 2008 þegar norska ríkið tók við utanumhaldinu. Teymið vinnur um allan Noreg og sinnir fræðslu, ráðgjöf og handleiðslu í einstökum málum sem tengjast heiðurstengdum átökum og vinnur með fagfólki á hverjum stað.

Í teyminu starfa fulltrúar frá barnaverndaryfirvöldum, lögreglunni, Útlendingastofnun, heilbrigðisráðuneytinu og velferðarráðuneytinu. Einnig hefur teymið náin tengsl við menntamálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið.

„Meginmarkmið teymisins er að veita fagfólki sem tekur á móti þolendum stuðning og fræðslu þegar kemur að þessum málum,“ segir Katarina. Heiðurstengd átök er ekki vel þekkt birtingamynd ofbeldis og segir Katarina að dæmi séu um að þegar lögreglan er kölluð á vettvang vegna heimilisofbeldis geri hún sér ekki grein fyrir að um slík átök sé að ræða sem geta jafnvel leitt til heiðurstengdra morða.

Yfir 100 stúlkur hnepptar í nauðungarhjónaband

Frá því að teymið hóf að starfa á vegum hins opinbera og ráðgjöfum í skólum var fjölgað í þrjátíu árið 2008 hafa teyminu borist um 600 mál árlega. 23% þeirra sem leituðu til teymisins í fyrra óttuðust að vera hnepptar í nauðungarhjónaband, mestmegnis stúlkur í kringum 18 ára aldur. 21% þeirra sem leituðu til teymisins, eða um 125 talsins, höfðu verið hnepptar í nauðungarhjónaband og 26% leituðu til teymisins vegna ofbeldis og hótana. Þá höfðu 6% orðið fyrir limlestingum á kynfærum, allt stúlkur.

Ungmennin sem leita til teymisins hafa verið búsett mislengi í Noregi en flest eiga þau ættir að rekja til Pakistan og Sýrlands. Þar á eftir koma mál sem tengjast ungmennum sem koma frá Afganistan, Sýrlandi og Sómalíu og starfa ráðgjafar á vegum teymisins í sendiráðum sem sinna þessum ríkjum. Farrah segir að málin séu ólík eftir því frá hvaða löndum þau koma og eru ekki einskorðuð við ákveðin trúarbrögð.

60% þeirra sem leita sér aðstoðar eru yfir 18 ára og 40% undir 18 ára. Stúlkur eru í miklum meirihluta þeirra sem leita til teymisins, í fyrra voru þær 79%, en sífellt fleiri drengir nýta sér þá aðstoð sem er í boði.

Ráðstefnan var ætluð öllum sem vilja fræðast um heiðurstengd átök, …
Ráðstefnan var ætluð öllum sem vilja fræðast um heiðurstengd átök, ekki síst starfsfólki félagsþjónustu, barnaverndar, heilsugæslu, lögreglu, skóla og Útlendingastofnunar og fólki sem vinnur með flóttafólki og þolendum ofbeldis. Kristinn Magnússon

Drengir eru einnig þolendur

Katarina segir að eitt af því sem teymið má draga lærdóm af ferlinu er að drengir eru einnig þolendur í heiðurstengdum átökum. „Það tók okkur svolítinn tíma að átta okkur á því að drengir eru einnig þolendur, við höfðum einblínt á stúlkur frá upphafi,“ segir hún. Í heiðurstengdum átökum er drengjum oft stjórnað af eldri körlum innan fjölskyldunnar og eru þeir sömuleiðis látnir stjórna, aðallega systrum sínum, og eiga þeir að gera allt sem þeir geta til að standa vörð um „hreinleika“ systur sinnar og koma í veg fyrir að hún eigi í samskiptum við aðra karlmenn fyrir hjónaband.

„Við vitum að það eru margir drengir þarna úti og við höfum verk að vinna við að ná þeim til okkar og veita þeim þá aðstoð sem þeir þurfa á að halda,“ segir Katarina.

„Þetta er hnattrænt vandamál sem á sér stað þvert á landamæri. Foreldrar ungmennanna finna einnig fyrir þrýstingi um að halda uppi heiðri fjölskyldunnar frá sínum foreldrum þannig þrýstingurinn nær yfir margar kynslóðir,“ segir Farrah.

Markmiðið að frelsa fleiri börn frá heiðurstengdum átökum

Aðgerðaáætlunin sem nú er í gildi í Noregi beinist að því að frelsa fleiri börn og ungmenni frá heiðurstengdum átökum. „Í upphafi lögðum við megin áherslu á nauðungarhjónabönd en sjáum nú að heiðurstengd átök eru undanfari margra nauðungarhjónabanda og horfum því meira til þeirra einnig,“ segir Katarina.

Mikill árangur hefur náðst frá því að teymið í núverandi mynd tók til starfa 2008 og segir Farrah að þar megi helst nefna hversu útbreitt samstarfið er orðið. „Allt frá samstarfi okkar við ráðgjafa í sendiráðum, skólum og útbreiðsla svæðistengds tengslanets.“ Samhliða á sér stað rannsóknar- og greiningarvinna á vinnu teymisins og er hún nýtt til að kortleggja starfið.

Edda Ólafsdóttir, félagsráðgjafi á skrifstofu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, segir að þörf …
Edda Ólafsdóttir, félagsráðgjafi á skrifstofu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, segir að þörf sé á að koma á teymi hér á landi sem fæst við umfang og afleiðingar heiðurstengdra átaka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilja koma sambærilegu teymi á fót hérlendis

Lítið hefur verið rætt um ofbeldi sem tengist heiðurstengdum átökum hér á landi en ráðstefnan í dag er ákveðinn upphafspunktur ferlis sem nú verður sett af stað. Edda Ólafsdóttir, félagsráðgjafi á skrifstofu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, segir að þörf sé á að koma teymi af þessu tagi á laggirnar hér á landi. „Við þurfum ekki alltaf að vera tveimur skrefum á eftir,“ segir hún.

Á morgun mun velferðarsvið borgarinnar funda með fulltrúum dómsmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, lögreglu og þjónustumiðstöðva borgarinnar þar sem farið verður yfir þann möguleika að kortleggja umfang heiðurstengdra átaka hér á landi og mögulegar aðgerðir.

Katarina og Farrah hafa fulla trú á að hægt sé að stofna þverfaglegt þekkingar- og fræðsluteymi hér á landi til að sinna þessum málaflokki. „Ég þekki ekki ástandið nægilega vel á Íslandi en ég veit að fjöldi hælisleitenda og flóttamanna fer hækkandi hér á landi og við leggjum til að komið verði á fót fræðsluteymi því við sjáum hversu verðmæt sú samvinna sem þar fer fram er. Þolendurnir þurfa margbreytilega aðstoð og þegar fólk stendur saman er auðveldara að deila þekkingu og ráðgjöf sem á þarf að halda,“ segir Katarina.

Vitað um einstök dæmi hér á landi

Meðal mikilvægustu hlutverka teymisins í upphafi að mati Katarinu er að fræða þá sem taka á móti þolendum, hverju þurfi að huga að og hvaða einkenni benda til þess að um heiðurstengd átök eða nauðungarhjónaband sé að ræða.

„Sérfræðiteymið er góður upphafspunktur þar sem þá er hægt að líta til teymanna á Norðurlöndunum og hægt að sjá hvað hefur tekist vel til þar og hvað ekki. Þið þurfið ekki að gera mistökin sjálf heldur getið litið til þess sem hefur tekist vel til hjá okkur,“ segir Farrah.

Starfsfólk Kvennaathvarfsins sem blaðamaður ræddi við á ráðstefnunni segir að ómögulegt sé að segja hversu umfangsmikil heiðurstengd átök og afleiðingar þeirra séu hér á landi og löngu tímabært sé að kortleggja þennan vanda. Þó er vitað um einstök dæmi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert