Þjófnaður á bókasafninu

.
. mbl.is/Styrmir Kári

Kona varð fyrir því óláni að stolið var frá henni munum þar sem hún var á bókasafninu í miðborginni síðdegis í gær. Meðal annars var síma hennar stolið, greiðslukorti og lyfjum. Lögreglumenn náðu þjófinum og fékk konan muni sína aftur.

Á sjöunda tímanum í gær var brotist inn í bifreið í hverfi 101 og fartölvu ásamt fleiri munum stolið. Lögreglan handtók mann sem er grunaður um innbrotið og er hann vistaður í fangageymslum lögreglunnar. Við vistun fundust fíkniefni á manninum. 

Sjö ökumenn voru stöðvaðir í umferðinni og eru þeir grunaðir um ýmis brot, svo sem vímuefnaakstur og að aka bifreið sviptir ökuréttindum. 

Klukkan 17:08 var ökumaður sem er grunaður um ölvunarakstur stöðvaður í hverfi 101. Klukkan 18:38 var annar ökumaður sem einnig er grunaður um ölvunarakstur stöðvaður í hverfi 105. 

Klukkan 20:26 stöðvaði lögreglan ökumann í Kópavogi sem hefur aldrei öðlast ökuréttindi og mun þetta vera  ítrekað brot. Hálftíma síðar var annar ökumaður stöðvaður í Kópavogi en sá er sviptur ökuréttindum.

Klukkan 22:35 var ökumaður sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, og farþegi í bifreiðinni er grunaður um vörslu fíkniefna, stöðvaður í hverfi 101. 

Lögreglan stöðvaði ökumann sem er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna á Reykjanesbrautinni í nótt. Hann var einnig með fíkniefni á sér. 

Annar ökumaður var stöðvaður undir áhrifum fíkniefna á Vesturlandsvegi í nótt. Hann var ekki með ökuskírteini á sér og ástandi bifreiðarinnar var áfátt þar sem annað skráningarnúmer vantaði og ljósabúnaður ekki í lagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert