Spurði um „ný bönn og nýja skatta“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á Alþingi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hvort áform um „ný bönn og nýja skatta“ veki ekki upp efasemdir hjá honum.

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi. 

Sigmundur Davíð sagði ríkisstjórnina hafa talað um að banna nagladekk, hefðbundna bíla og plast, auk þess sem hann sagði kolefnisgjald vera nýjan skatt á neytendur sem sé ætlaður til þess að refsa fólki fyrir að komast leiðar sinnar. Einnig minntist hann á sykurskattinn.

Bjarni sagði kolefnisgjaldið vera hluta af stærra kerfi. Eigendur rafmagnsbíla og annarra farartækja sem eru umhverfisvæn fái ívilnun. Horfa þurfi á hlutina í heildarsamhengi til að ná fram breytingu, sem sé að ganga ágætlega eftir.

Bjarni sagði ríkisstjórnina hafa tekið hátt í 2.000 vörugjöld og varpað fyrir róða og einnig hafi hún fellt niður tolla. „Ég hafði aldrei trú á sykurskattinum vegna þess að það voru engin merki þess að hann væri að valda neyslubreytingu,“ sagði hann og kvaðst sammála Sigmundi Davíð um hafa þurfi augun opin fyrir því að létta af fólki óþarfa gjöldum.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert