Ágúst stóð einn að sinni yfirlýsingu

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er munur á þeim,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, þegar hann er spurður um misræmi milli yfirlýsingar Ágústs Ólafs Ágústssonar og svars Báru Huldar Beck, þar sem hún segir Ágúst Ólaf gera minna úr atvikinu en hann hafi áður gengist við.

Ágúst Ólaf­ur hef­ur farið í tveggja mánaða leyfi frá þing­störf­um í kjöl­far þess að trúnaðar­nefnd flokks­ins veitti hon­um áminn­ingu vegna fram­komu hans í garð Báru á vinnustað hennar, Kjarnanum, í sumar.

Logi segir að í kjölfar Metoo-byltingarinnar hafi flokkurinn sett saman trúnaðarnefnd en hennar verkefni er að taka á málum sem þessum. Í nefndinni sitja tveir sálfræðingar, lögmaður og félagsráðgjafi en þetta segir Logi gert til að sjá til þess að mál fái hlutlæga og faglega meðferð.

Ágúst Ólafur Ágústsson er í leyfi frá þingstörfum næstu tvo …
Ágúst Ólafur Ágústsson er í leyfi frá þingstörfum næstu tvo mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Bára hafði samband við mig síðla í haust og lýsti þessu fyrir mér. Ég sagði henni að úrræði okkar væri þessi trúnaðarnefnd og gaf henni upplýsingar um það ferli. Jafnframt sagði ég henni að ég myndi láta Ágúst vita að ég hefði sagt henni frá þessu,“ segir Logi þar sem hann lýsir aðkomu sinni að málinu.

Nefndin skilaði niðurstöðu 27. nóvember þar sem Ágúst Ólafur er áminntur fyrir að hafa brotið gegn Báru Huld með því að hafa ítrekað og í óþökk hennar reynt að kyssa hana og fyrir að hafa niðurlægt hana með móðgandi athugasemdum. Nefndin telur að Ágúst Ólafur hafi sniðgengið stefnu Samfylkingarinnar um einelti og áreitni.

Í kjölfar þess kallaði Ágúst þingmenn á fund og sagði frá úrskurði trúnaðarnefndar og tilkynnti okkur að hann myndi fara í leyfi og sækja sér aðstoð og gefa út yfirlýsingu um málið,“ segir Logi. Hann segist ekki hafa séð yfirlýsingu Ágústs áður en hann birti hana á Facebook og það sé hans yfirlýsing.

Síðan hafi Bára svarað með sinni hlið málsins í morgun. „Þetta er atvikalýsing tveggja einstaklinga sem ég treysti mér ekki til að tjá mig um að öðru leyti,“ segir Logi og neitar því ekki að munur sé á því hvernig þau lýsi því sem gerðist.

Tjáir sig ekki um hvort Ágúst Ólafur eigi afturkvæmt á þing

Spurður hvort yfirlýsing Ágústs Ólafs sé í samræmi við það sem kom fram fyrir trúnaðarnefndinni segir Logi að nefndin sé bundin trúnaði og að hann viti ekki allt sem þar fari fram. Nefndin sé starfandi til að mál eins og þessi séu ekki unnin með tilviljanakenndum hætti.

„Þetta var hans tilkynning. Hann stóð einn að henni og við sáum hana ekki áður þannig að hann verður bara að svara fyrir það,“ svarar Logi þegar hann er inntur eftir því hvort ekki hafi þótt ástæða til að leiðrétta yfirlýsingu Ágústs Ólafs um helgina.

Hann segist ekkert ætla að tjá sig frekar um yfirlýsingu Ágústs Ólafs og getur ekki svarað því hvort hann geti snúið aftur á Alþingi að loknu leyfi.

„Ég ætla ekki að svara þessu að öðru leyti en því að ég vona að Ágúst geti nýtt tækifærin á næstunni til að sækja þá aðstoð sem hann ætli og þurfi að gera. Ég vona líka, og það er mjög mikilvægt, að Bára geti jafnað sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert