Dæmdur fyrir að ráðast á barn í bíl

mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Karlmaður um þrítugt var í síðustu viku dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir að hafa ráðist gegn fimm ára barni í aftursæti bifreiðar við gatnamót Laugavegar og Snorrabrautar í nóvember í fyrra. Var maðurinn undir miklum áhrifum fíkniefna þegar brotið átti sér stað og sagðist ekkert muna eftir atvikinu.

Í dómi héraðsdóms er því lýst að barnið hafi verið í aftursæti bifreiðar og var móðir barnsins ökumaður. Var bíllinn kyrrstæður á rauðu ljósi þegar maðurinn kom ásamt félaga sínum að bílnum. Opnuðu þeir bæði bílstjórahurðina og aftursætishurð þar sem barnið var. Öskraði konan á þá og náði að loka hurðinni hjá sér og tók þá eftir að barnið var hágrátandi í aftursætinu og blóðugt í framan.

Drengurinn greindi meðal annars frá því að maðurinn hafi slegið sig í andlitið og klipið fast í nefið á eftir. Kom fram að árásin hefði haft talsverð áhrif á drenginn.

Hvorugur mannanna man eftir því að hafa reynt að opna bílhurðirnar, en þeir höfðu drukkið mikið saman fyrr um daginn og verið í annarlegu ástandi.

Dómurinn taldi sannað að maðurinn hafi ráðist að drengnum og slegið hann í andlitið. Er hann fundinn sekur um líkamsárás og brot á barnaverndarlögum. Er tekið fram að þótt hann hafi verið undir áhrifum leysi það hann ekki undan refsiábyrgð, þó að talið sé að ásetningur hans hafi verið þokukenndur vegna ölvunar.

Var maðurinn sem fyrr segir dæmdur í tveggja mánaða fangelsi og þarf hann að greiða drengnum 400 þúsund krónur í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert