Fresta afgreiðslu samgönguáætlunar

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afgreiðslu samgönguáætlunar hefur verið frestað til 1. febrúar á næsta ári. Ákvörðun þess efnis var samþykkt á fundi formanna allra flokka á þingi í gær.

Frá þessu er greint á vef Rúv. 

Haft er eftir Sigurði Inga Jóhannssyni samgönguráðherra að tíminn fram að jólum sé of knappur til að afgreiða áætlunina en stefnt var að því að hún yrði samþykkt fyrir áramót.

Fram kemur í Morgunblaðinu, að hluti stjórnarandstöðunnar á Alþingi hafi verið afar ósáttur við áform stjórnarflokkanna um að afgreiða samgönguáætlun fyrir jól. Hótuðu sumir þeirra málþófi þegar þeir tóku málið tvisvar upp í gær undir liðnum umræða um fundarstjórn forseta.

Stjórnarandstaðan var samkvæmt heimildum Morgunblaðsins reiðubúin að hafa samgönguáætlanir sem forgangsmál eftir áramót, ef afgreiðslu þeirra yrði frestað.

Þingsályktunartillögur samgönguráðherra um samgönguáætlun til fimm ára og lengri tíma hafa verið til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins frá því í lok september. Málið hefur tekið þá stefnu á þessum tíma að stuðningur hefur vaxið við hugmyndir um flýtingu vegaframkvæmda með lántöku og innheimtu veggjalda. Jón Gunnarsson, starfandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar, segir að meirihluti samgöngunefndar hafi farið í mikla vinnu við að breyta tillögu að samgönguáætlun í þessa átt.

„Þetta mun valda byltingu í samgöngumálum og verður framfaraskref. Ný samgönguáætlun svarar betur kalli þjóðarinnar eftir bættum vegum og öruggari samgöngum,“ sagði Jón í samtali við Morgunblaðið.

„Vinnunni er svo gott sem lokið og málið er að verða tilbúið til úttektar hjá nefndinni,“ sagði Jón þegar hann er spurður um stöðuna í nefndinni. Nefndin mun funda í dag og á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert