Tugir milljarða í ný hótelherbergi

Hótelherbergin sem eru að bætast við á næstunni.
Hótelherbergin sem eru að bætast við á næstunni. mbl.is

Áformað er að taka um 1.500 hótelherbergi í notkun í Reykjavík á næstu tveimur árum. Það jafnast á við 15 meðalstór borgarhótel. Miðað við að hvert hótelherbergi kosti að meðaltali 35 milljónir í byggingu er þetta fjárfesting upp á tæplega 53 milljarða króna.

Þorsteinn Andri Haraldsson, sérfræðingur á greiningardeild Arion banka, segir þessa fjölgun hótelherbergja mæta eftirspurn. „Samkvæmt okkar grunnspá munu um 1.500 herbergi bætast á markaðinn á næstu tveimur árum. Það svarar ágætlega þeirri þörf sem skapast með 6% fjölgun ferðamanna í ár og 2% fjölgun á næsta ári, ásamt uppsafnaðri þörf undanfarinna ára,“ segir Þorsteinn en til samanburðar spá Samtök ferðaþjónustunnar 3-5% vexti í ferðaþjónustu á næsta ári.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag bendir Þorsteinn á að nýting hótelherbergja hafi verið afar góð á Íslandi í alþjóðlegum samanburði. Því megi búast við að nýtingin í Reykjavík muni á næstu árum færast nær því sem gerist í borgum á borð við París og Berlín. Þar sé meðalnýtingin um 75%. Hann segir aðspurður að með fleiri hótelum ætti framboð á ódýrari hótelgistingu að aukast. Það ásamt hertum reglum um skammtímaleigu íbúða til ferðamanna muni styrkja stöðu hótela.

„Ferðamenn hafa verið að færa sig frá Airbnb-íbúðum og aftur yfir á hótelin,“ segir Þorsteinn.

Hagstætt fyrir ferðamenn

Hann segir aðspurður að aukið framboð hótelgistingar og veiking krónu geti reynst hagfellt fyrir erlenda ferðamenn. Mikil eftirspurn miðað við framboð hafi enda ýtt undir verð á gistingu í Reykjavík.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, segir nálgun borgarinnar varðandi Airbnb-íbúðir þríþætta. Í fyrsta lagi sé um að ræða samstarf við sýslumann sem sinni eftirliti. Í öðru lagi beina samninga við Airbnb-fyrirtækið. Á næstu dögum sé einmitt að vænta tíðinda af áfangasigri í þeim efnum varðandi skilyrði fyrir útleigunni. Í þriðja lagi alþjóðlega samvinnu við ört vaxandi ferðaþjónustuborgir. Samanlagt muni þessar aðgerðir skila miklum árangri á næsta ári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert