Fylgjast með fótspori ferðamannsins

Ferðamenn koma víða við á Íslandi og það reynir á …
Ferðamenn koma víða við á Íslandi og það reynir á innviðina. mbl.is/​Hari

Í ágúst árið 2010 voru um 30.000 ferðamenn staddir á Íslandi samtímis. Á sama tíma árið 2017 voru þeir orðnir 90.000. Þegar 90.000 ferðamenn eru staddir á Íslandi til viðbótar við Íslendinga sjálfa er ljóst að innviðirnir þurfi að geta staðið undir þeim gríðarmikla umframfjölda.

Þetta er meðal þess sem segir í nýlegri skýrslu sem EFLA verkfræðistofa vann fyrir atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið. Skýrslan er fyrri áfangi af tveimur í mati ráðuneytisins á innviðum hérlendis með tilliti til ferðaþjónustu.

Markmið skýrslunnar er að stilla upp skynsamlegum vísum til þess að meta þróun innviða á Íslandi. Við mótun þeirra er lögð áhersla á að líta til stóru myndarinnar, segir í skýrslunni, og reynt að meta hvert fótspor ferðamanna sem hingað ferðast er. Þannig tekur mótun vísanna mið af ferðamannsins hverju fótmáli, allt frá því hann lendir og þar til hann er farinn af landi brott.

Næsti áfangi verkefnisins er að meta stöðuna út frá vísunum sem hefur verið stillt upp. Þá ætti að koma betur og betur í ljós á hvaða sviðum þolmörkum innviða hefur sannarlega verið náð og þá hvort bregðast þurfi við því með uppbyggingu þeirra.

Á morgun býður Stjórnstöð ferðamála til kynningarfundar í Kaldalóni í Hörpu kl. 8.30-10.00. Þar verða kynntar niðurstöður þessa fyrsta áfanga og jafnframt reifuð áform um framhaldið. Til máls taka fulltrúar frá EFLU og einnig erlendir aðilar frá samanburðarlöndum í þessum efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert