Leggst gegn sölu Lækningaminjasafns

Smíði hússins fór langt fram úr fjárhagsáætlun.
Smíði hússins fór langt fram úr fjárhagsáætlun. mbl.is/Sigurður Bogi

Samfylkingin á Seltjarnarnesi leggst gegn því að Lækningaminjasafnið verði selt til þriðja aðila. „Húsið hefur alla burði til þess að verða stolt og prýði bæjarins,“ segir í bókun flokksins um húsið, sem bærinn auglýsti til sölu í síðustu viku.

Mikill styr hefur staðið um húsið. Smíði þess fór langt fram úr fjárhagsáætlun. Heildarkostnaður þess var talinn vera um 700 milljónir króna í lok árs 2012. Húsið er fokhelt en framkvæmdum var hætt haustið 2008.

Samfylkingin leggur til að bærinn eigi húsið og leigi undir skilyrtan rekstur. „Þar mætti sameina safn, veitingasölu, upplýsingamiðlun til ferðamanna og aðra þjónustutengda starfsemi. Hefur húsið á síðustu árum hýst marga merka menningarviðburði og þegar stimplað sig inn sem fyrsta flokks viðburðastaður á höfuðborgarsvæðinu,“ segir einnig í bókuninni.

Lagt er til að unnið verði verðmat á húseignina og að nýtt mat verði unnið vegna aðgerða og kostnaðar sem þarf til að koma húsinu í lag.

„Við teljum einnig að Lækningaminjasafnshúsið geti verið hornsteinn í gerð ferðamálastefnu og uppbyggingu þjónustu við íbúa og ferðamenn þar sem saman koma fleiri hús á svæðinu svo sem Nesstofa og Lyfjasafnið en saman mynda þessi hús sérstöðu í safnaflórunni á landsvísu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert