Meirihlutinn les bækur

Bækur eru stór hluti af lífi flestra Íslendinga.
Bækur eru stór hluti af lífi flestra Íslendinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meirihluti aðspurðra hefur lesið bók undanfarinn mánuð. Þetta er niðurstaða könnunar sem Miðstöð íslenskra bókmennta lét gera á viðhorfi þjóðarinnar til m.a. bóklestrar, þýðinga, bókasafna og opinbers stuðnings við bókmenntir. Að meðaltali hafði fólk lesið tæpar þrjár bækur síðasta mánuðinn en 27,6% aðspurða hafði ekki lesið neina bók. 

„Athyglisvert er að svarendum á aldrinum 18-24 ára finnst mikilvægara en öðrum aldurshópum að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi. Karlar lesa að meðaltali 2 bækur á mánuði en konur 3,5 og þær eru hlynntari opinberum stuðningi við bókmenntir en karlar. Vinir og ættingjar hafa mest áhrif á val á lesefni en einnig vegur umfjöllun í fjölmiðlun þungt,“ segir í tilkynningu.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar telur yfirgnæfandi meirihluti landsmanna, eða um 79%, mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi, sem er hærra hlutfall en í sambærilegri könnun frá síðasta ári. Konur eru í meirihluta þeirra og fólk á aldrinum 18-24 ára.

Niðurstöður sýna að 72% svarenda hafa lesið eða hlustað á bók/bækur síðastliðna 30 daga að hluta eða í heild. Um 86% þeirra hafa lesið hefðbundnar bækur á síðustu 12 mánuðum, 31% lesið rafbækur og 35% hlustað á hljóðbækur. Karlar lesa að meðaltali 2 bækur á mánuði en konur 3,5.

Samkvæmt niðurstöðum fá um 56% svarenda hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum, um 40% í umfjöllun í fjölmiðlum, 30% í umfjöllun á samfélagsmiðlum, um 26% í bókabúðum, um 25% í auglýsingum og um 20% á bókasöfnum.

Hér er hægt að skoða ítarlegar upplýsingar um könnunina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert