„Rosalega mikið högg fyrir félagið“

Ljósmynd/WOW air

„Þetta er náttúrulega bara hörmulegt, það er bara þannig,“ segir Orri Þrastarson, varaformaður Flugfreyjufélags Íslands, í samtali við mbl.is um uppsagnir fjölda starfsmanna WOW air sem tilkynnt var um í dag. Samtals hefur 250 starfsmönnum flugfélagsins verið sagt upp störfum og þar af 111 sem voru fastráðnir hjá félaginu.

„Þetta er bara rosalega mikið högg fyrir félagið. Það er bagalegt að starfsöryggi fólks í fluggeiranum sé ekki meira en þetta,“ segir Orri enn fremur inntur eftir viðbrögðum Flugfreyjufélagsins. Uppsagnirnar snerta allar deildir félagsins að sögn Skúla Mogensen, forstjóra WOW air. Dagurinn sé sá versti í sögu þess.

„Þetta er mjög erfið ákvörðun og sorgleg, en því miður nauðsynleg til að tryggja framtíð félagsins og að tryggja áframhaldandi störf þeirra tæplega þúsund starfsmanna sem eru áfram. Þetta er grunnur að því að hafa arðbært félag til framtíðar.“

Vignir Örn Guðnason, formaður Íslenska flugmannafélagsins (ÍFF), sagði í dag í samtali við mbl.is að engum fastráðnum félagsmanni félagsins hafi verið sagt upp störfum. Hins vegar gæti hann ekki svarað fyrir flugmenn sem ráðnir hefðu verið sem verktakar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert