Geti sinnt störfum án ofbeldis og áreitni

Umrætt atvik átti sér stað á meðan HM karla í …
Umrætt atvik átti sér stað á meðan HM karla í fótbolta stóð í Rússlandi. mbl.is/Eggert

Stjórn Samtaka íþróttafréttamanna sendi frá sér yfirlýsingu nú fyrir stundu vegna atviks sem kom upp á HM karla í fótbolta í Rússlandi í sumar, en þá kvartaði Edda Sif Pálsdóttir, íþróttafréttakona á RÚV, undan Hirti Hjartarsyni, þáverandi íþróttafréttamanni á Stöð 2, til öryggisnefndar KSÍ. Hann hafði sýnt af sér óæskilega og ógnandi hegðun og var Edda Sif í miklu uppnámi eftir samskipti við hann.

Á blaðamannafundi daginn eftir atvikið virtist Hjörtur enn vera undir áhrifum áfengis og var framkoma hans þar einnig talin óásættanleg.

Hjörtur var sendur heim frá Rússlandi vegna málsins og sagði upp starfi sínu í kjölfarið.

Í yfirlýsingu stjórnar samtakanna er það harmað að ekki hafi verið fjallað um málið fyrr, en þar kemur meðal annars fram að lögð sé rík áhersla á að íþróttafréttamenn geti sinnt störfum sínum án þess að verða beittir ofbeldi eða sæta óeðlilegri áreitni af nokkru tagi.

„Samtökin fordæma því hvers kyns ofbeldi og skora á félagsmenn að leggja sitt af mörkum við að tryggja öruggt starfsumhverfi,“ segir í yfirlýsingunni.

Hjörtur sagði gömul veikinda hafa tekið sig upp eftir fjögur ár, en hann fór í áfengismeðferð á Vogi árið 2014 eftir að hafa veist að samstarfsmanni á Stöð 2. Árið 2012 var Hjört­ur lát­inn fara frá RÚV í kjöl­far þess að Edda Sif kærði hann fyr­ir lík­ams­árás. Kær­an var lát­in niður falla eft­ir að þau náðu sátt­um sín á milli.

Yfirlýsing frá stjórn Samtaka íþróttafréttamanna: 

Í ljósi hegðunar þáverandi félagsmanns í Samtökum íþróttafréttamanna gagnvart öðrum félagsmanni á meðan HM karla í fótbolta stóð í Rússlandi sendir SÍ frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Samtök íþróttafréttamanna leggja ríka áherslu á að íþróttafréttamenn geti sinnt störfum sínum án þess að verða beittir ofbeldi eða sæta óeðlilegri áreitni af nokkru tagi. Samtökin fordæma því hvers kyns ofbeldi og skora á félagsmenn að leggja sitt af mörkum við að tryggja öruggt starfsumhverfi. Stjórn SÍ harmar einnig að hafa ekki fjallað um málið fyrr en nú og biðst afsökunar vegna þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert