Hlýtt og blautt veður um helgina

Það liggur í suðaustlægum og austlægum áttum með rigningu og …
Það liggur í suðaustlægum og austlægum áttum með rigningu og frekar hlýju veðri. mbl.is/​Hari

Áfram verður hlýtt og blautt víðast hvar á landinu um helgina, samkvæmt veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands. Útlit er fyrir að kólna muni í veðri fyrir næstu helgi, helgina fyrir jól, og þá gæti snjóað.

„Veðurspá fyrir helgina er þokkaleg, það liggur í suðaustlægum og austlægum áttum með rigningu og frekar hlýju veðri,“ segir Þorsteinn V. Jónsson veðurfræðingur. „Veður er svipað áfram, en það koma og fara lægðadrög með talsverðri rigningu á Austfjörðum.“

Þorsteinn segir hlýtt á landinu miðað við árstíma, en hiti um helgina verður víðast hvar 0 til 5 stig yfir daginn. Ekki er útlit fyrir að snjói, nema til fjalla.

Það kólnar í veðri fyrir næstu helgi.
Það kólnar í veðri fyrir næstu helgi. Kort/Veðurstofa Íslands

Vindur verður tiltölulega hægur um helgina, þó hvessir aðeins síðdegis í dag og verður strekkingur við suðurströnd landsins, en hægari vindur á morgun, laugardag, og á sunnudag. Þó má búast við norðaustanstrekkingsvindi á Vestfjörðum síðdegis á laugardag og á sunnudag.

„Svo er eins og það kólni eitthvað um þarnæstu helgi, þá er hitinn á niðurleið. Helgina fyrir jól virðist kólna og þá gæti nú komið einhver föl.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert