Káfaði á kynfærum barnungrar dóttur sinnar

Landsréttur taldi sannað að ákærði hafi brotið gegn dóttur sinni.
Landsréttur taldi sannað að ákærði hafi brotið gegn dóttur sinni. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur mildaði í dag dóm yfir karlmanni sem héraðsdómur Reykjavíkur hafði dæmt í 12 mánaða fangelsi fyrir að káfa á kynfærum barnungrar dóttur sinnar. Stytti Landsréttur dóminn úr 12 mánuðum í níu, en en fullnustu sex mánaða refsingar er frestað haldi maðurinn skilorð í þrjú ár.

Upphaf málsins má rekja til bréfs sem Barnavernd Reykjavíkur sendi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í júní 2015. Var þar óskað er rannsóknar á meintum kynferðisbrotum ákærða gagnvart dætrum sínum tveimur sem eru brotaþolar í málinu. Barnaverndaryfirvöld og lögregla höfðu áður haft afskipti af málum fjölskyldunnar, sem flutt hafði til landsins,  m.a. vegna tilkynninga um ætlað ofbeldi ákærða gagnvart annarri dótturinni eftir að fjölskyldan flutti til landsins. Hefur sú stúlka fengið aðstoð hér á landi vegna sjálfskaðandi hegðunar og andlegra erfiðleika.

Fram kom í bréfinu að ákærði og eiginkona hans væru ekki lengur í sambúð, en sterkur grunur léki á að ákærði hefði beitt dætur sínar kynferðislegu ofbeldi. Var rætt við móður þeirra og stúlkuna sem aðstoð hefur fengið í þjónustumiðstöð og sagðist móðirin þá hafa séð ákærða fara með höndina í klof hinnar dótturinnar er hún svaf á milli þeirra hjóna. Dóttirin sem rætt var við sagðist enn fremur hafa séð ákærða horfa á klám og nudda getnaðarlim sinn fyrir framan sig. Hún hefði einnig séð hann horfa á klámmyndbönd í viðurvist hinnar systurinnar og séð hann káfa á klofi hennar.

Í skýrslu yfir þeirri stúlku sem tekin var í Barnahúsi kom fram að hún væri hrædd við ákærða því hann nuddaði mjög oft klof hennar. Sýndi hún það með því að nudda klof sitt yfir sokkabuxurnar. Þá sagði hún ákærða hafa farið inn undir náttbuxur sínar og að hún hafi verið mjög hrædd. Eins hafi hún séð hann fróa sér er hann horfði á klámmynd.

Maðurinn neitar sök og sagði í skýrslu sinni fyrir Landsrétti að hann teldi sakargiftir á hendur sér vera „samantekin ráð þeirra mæðgna um að koma höggi“ á sig og útiloka sig þannig frá umgengni við dætur sínar.

Dómarar töldu skýrslu stúlkunnar í Barnahúsi hins vegar vera trúverðuga þó hún væri brotakennd. Framburður systur hennar væri einnig að mestu skýr. Dómurinn taldi því sannað að ákærði hafi brotið gegn dóttur sinni með því að hafa í a.m.k. þrjú skipti káfað á kynfærum utanklæða í stofu íbúðarinnar. Ósannað sé hins vegar að hann hafi snert kynfæri hennar innanklæða.

Landsréttur úrskurðaði því að ákærði skuli sæta níu mánaða fangelsi, en fullnustu sex mánaða refsingarinnar er frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Þá var honum gert að greiða dótturinni sem sannað þykir að hann hafi káfað á 800.000 kr. í miskabætur. Héraðsdómur hafði áður hafnað bótakröfu móðurinnar til handa hinni dótturinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert