Fimm umferðaróhöpp á Norðurlandi vestra

Lögreglan á Norðurlandi vestra biður fólk um að fara mjög …
Lögreglan á Norðurlandi vestra biður fólk um að fara mjög gætilega í umferðinni. Ljósmynd/Lögreglan

„Þetta er ekki að fólk sé illa búið eða glæfraakstur sem veldur. Þetta er aðallega hversu lúmsk hálkan er,“ segir Hilmar Hilmarsson, lögreglumaður á Norðurlandi vestra, í samtali við mbl.is. Fimm umferðaróhöpp hafa átt sér stað í umdæminu um helgina og er aðallega um bílveltur að ræða. Engin alvarleg slys hafa orðið á fólki.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar.

Lögreglan hefur minnt fólk á að fara sérstaklega varlega þar sem mikil ísing sé á vegum. Hilmar var tiltölulega nýkominn úr útkalli. Hann segir að aðstæður séu mjög varasamar eins og staðan er núna þar sem erfitt sé að lesa í aðstæður. Það geti verið fljúgandi hálka á stuttum köflum á sumum stöðum en einungis nokkrum kílómetrum síðar sé grenjandi rigning þrátt fyrir að hitastig sé það sama.

Þá segir Hilmar að það sé mikil lukka að umferðaróhöppin og þá helst bílvelturnar hafi ekki leitt til alvarlegra slysa á fólki. „Beltin bjarga, það er bara þannig,“ segir hann og ítrekar að fólk skuli fara mjög varlega „og komi sér heilu og höldnu heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert