Með lag í Netflix-kvikmynd

Unnur lýsir laginu sem einhvers konar alternatívu rafpoppi, en kvikmyndin …
Unnur lýsir laginu sem einhvers konar alternatívu rafpoppi, en kvikmyndin Velvet Buzzsaw er dökk satírsk spennu-hryllingsmynd. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var allt mjög mikil tilviljun,“ segir Unnur Eggertsdóttir, leik- og söngkona, en nýlega keypti leikstjórinn Dan Gilroy af henni lag fyrir senu í Netflix-kvikmyndinni Velvet Buzzsaw, sem skartar leikaranum Jake Gyllenhaal í aðalhlutverki.

„Vinur minn, Martyn Zub, sem ég hef verið að semja tónlist með, var að vinna með leikstjóranum og vissi að hann væri að leita að lagi fyrir ákveðna senu. Við ætlum að gefa út EP-plötu snemma á næsta ári, en við ætluðum ekki endilega að hafa þetta lag á plötunni,“ útskýrir Unnur.

„Martyn prófaði að sýna leikstjóranum lagið, fannst það passa í senuna og Gilroy var sammála og keypti það af okkur.“

Fer á frumsýningu með Gyllenhaal

Unnur segir mjög skemmtilegt að þau fái því kredit í kvikmyndinni, en auk Gyllenhaal leika þau John Malkovich og Toni Collette meðal annars í Velvet Buzzsaw. „Það er ofboðslega gaman að fá að vera hluti af einhverju verkefni með þessu fólki, kíkja með því á frumsýninguna og svona.“

Jake Gyllenhaal fer með aðalhlutverk í Velvet Buzzsaw.
Jake Gyllenhaal fer með aðalhlutverk í Velvet Buzzsaw. AFP

Unnur lýsir laginu sem einhvers konar alternatívu rafpoppi, en kvikmyndin Velvet Buzzsaw er dökk satírsk spennu-hryllingsmynd. „Ég veit að Malkovich er í senunni sem lagið verður í, en annars er rosalega mikil leynd yfir öllu svona. Það eru alltaf einhverjar líkur á að senan verði stytt og þá lagið líka. Það er alltaf einhver fyrirvari þangað til kvikmyndin er komin upp á skjá,“ segir Unnur, en er mjög spennt að sjá útkomuna.

Í kjölfar þess að þau seldu lagið segir Unnur fjölmargar dyr hafa opnast.

„Það er orðið miklu auðveldara fyrir okkur að fá viðtöl við umboðsmenn. Fleira fólk vill hjálpa okkur að koma tónlistinni okkar á framfæri.“

Leik- og tónlist haldist vel í hendur

Fram undan hjá Unni er því útgáfa EP-plötunnar í samstarfi við Zub, en ráðgert er að hún komi út snemma árs 2019. Það er þó langt því frá að Unnur sé hætt að huga að leiklistinni, en þess má geta að í næstu viku ætlar hún að halda námskeið fyrir Íslendinga sem vilja læra leiklist í Bandaríkjunum. Sjálf var Unnur valin besta leikkona árgangsins þegar hún útskrifaðist frá The American Academy of Dramatic Arts í New York árið 2016.

Unnur neitar því að tónlistin komi í staðinn fyrir leiklistina. „Alls ekki, þetta helst bara mjög vel í hendur. Ein stærsta fyrirmyndin mín er Donald Glover, sem er í fullri vinnu sem leikari, leikstjóri og rithöfundur, en er líka með magnaðan tónlistarferil sem Childish Gambino. Svo ég held að ef viljinn er fyrir hendi og tjáningarþörfin er sterk, þarf ekki endilega að fórna einu fyrir annað.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert