Brot á lögum og beinlínis hættulegt

Frá höfninni á Flateyri. Mynd úr safni.
Frá höfninni á Flateyri. Mynd úr safni. mbl.is/Brynjar Gauti

Lögreglan á Vestfjörðum vinnur nú úr gögnum og sýnum í máli skipstjóra á fiskibáti sem handtekinn var á Suðureyri seint á föstudagskvöld, vegna gruns um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna og brota á lögskráningu sjómanna. Málið liggur hins vegar nokkuð ljóst fyrir, að sögn Hlyns Hafberg Snorrasonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

Lögreglu barst ábending á föstudagskvöld um að skipstjórinn væri mögulega undir áhrifum fíkniefna við stjórn bátsins, en hann nálgaðist þá Flateyri að loknum veiðum. Auk skipstjórans voru fjórir aðrir skipverjar um borð.

Lögreglan beið skipstjórans á bryggjunni á Flateyri en þegar hann varð var við laganna verði sneri hann frá höfninni og sigldi áleiðs út Önundarfjörð. Slökkti hann um leið öll siglingaljós og fljótlega á sjálfvirkum tilkynningarskyldubúnaði. Slíkt er brot á lögum og beinlínis hættulegt, að sögn Hlyns.

Í framhaldinu voru björgunarsveitir kallaðar út til leitar að bátnum, auk þyrlu og varðskips Landhelgisgæslunnar. Þá fóru lögreglumenn á nálægar hafnir. Um tveimur tímum eftir að báturinn hafði farið frá Flateyri kom hann í höfn á Suðureyri, þar sem skipstjórinn var handtekinn og færður á lögreglustöðina á Ísafirði

Fyrir utan að vera grunaður um hafa ekki verið í ástandi til að stjórna bátnum og að hafa slökkt á mikilvægum búnaði, er skipstjórinn einnig grunaður um að hafa ekki skráð áhöfnina í samræmi við lög, eða að skráningunni hafi að minnsta kosti verið ábótavant. Hlynur segir öll þessi atriði vera uppi á borðum við rannsókn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert