Sofa á vinnustaðnum og öryggi ábótavant

Veigamiklar athugasemdir voru gerðar við aðbúnað og öryggisatriði. (Mynd úr …
Veigamiklar athugasemdir voru gerðar við aðbúnað og öryggisatriði. (Mynd úr safni) mbl.is/Rax

Vinnueftirlitið hefur lokað byggingarvinnustað við Vesturberg 195 í Breiðholti, þar sem fyrirtækið Fylkir ehf. er í framkvæmdum. Vinna hefur verið bönnuð á öllu vinnusvæðinu þar sem lífi og heilbrigði starfsmanna er talin hætta búin vegna slæms aðbúnaðar. Þá eru merki um að starfsmenn sofi og hafist við á verkstað. Einungis er heimilt að vinna að úrbótum í samræmi við fyrirmæli vinnueftirlitsins.

Athugasemdir sem gerðar voru í eftirlitsheimsókn á vinnustaðinn í síðustu viku eru mjög veigamiklar hvað varðar aðbúnað starfsmanna og öryggisatriði.

Fallvörnum er ábótavant, en handrið og fallvarnir vantar á öllum stöðum. Drasl er á umferðarleiðum um verkstað, byggingarefni á víð og dreif, án skipulags, sem skapar aukna slysahættu, að segir í skýrslu Vinnueftirlitsins. Þá eru opin göt á gólfplötu í húsinu sem skapar fallhættu og öryggishlíf vantar á borðsög.

Þá er kranastjórnandi á verkstað með erlend kranaréttindi, að eigin sögn, en engin gögn eru til staðar um það. Fram kemur í skýrslu Vinnueftirlitsins að öll erlend réttindi þurfi að hljóta samþykki eftirlitsins áður en kranastjórnendur byrji að stjórna krönum hér á landi.

Fyrirtækið hefur ekki gert áætlun um öryggi og heilbrigði en hún á meðal annars að fela í sér sérstakt áhættumat með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfinu, ásamt áætlun um heilsuvernd og forvarnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert