Stóð ekki til að Bára gæfi skýrslu

Lögmennirnir Ragnar Aðalsteinsson og Auður Tinna Aðalbjarnardóttir ásamt skjólstæðingi sínum, …
Lögmennirnir Ragnar Aðalsteinsson og Auður Tinna Aðalbjarnardóttir ásamt skjólstæðingi sínum, Báru Halldórsdóttur, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Það var aldrei farið fram á að Bára gæfi skýrslu,“ segir Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður í samtali við mbl.is en hann er einn lögmanna Báru Halldórsdóttur sem hljóðritaði samtal sex þingmanna á kránni Klaustri 20. nóvember.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að Bára hafi verið boðuð í skýrslutöku fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en Ragnar segir það ekki rétt orðalag. Lögmaður þingmannanna hafi hins vegar farið fram á að ákveðin gagnaöflun færi fram í tengslum við málið.

Þessari gagnaöflun hafi lögmenn Báru mótmælt en krafan um hana snerist um að fengnar yrðu upptökur úr eftirlitsmyndavélum frá Alþingi, dómkirkjunni og Klaustri. Næsta skref felst í ákvörðun dómara um það hvort umrædd gagnaöflun verði heimiluð. 

„Það er beinlínis lagaákvæði, þegar farið er í slíka gagnaöflun áður en höfðað er mál, þá má það ekki lúta að neinu sem geti talist refsivert. Hún getur ekki svarað spurningum í einkamáli þegar á bak við er hótun um refsimál,“ segir Ragnar enn fremur.

Ragnar segir að ekki komi þannig til þess að Bára gefi skýrslu í málinu nema til þess komi að höfðað verði einkarefsimál gegn henni síðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert