Svefninn bíður fram að jólum

Sjö slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn hafa skipst á að halda róðravél …
Sjö slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn hafa skipst á að halda róðravél gangandi frá því á föstudag og ætla að halda uppteknum hætti til klukkan 17 á föstudag. mbl.is/Hari

„Þetta hefur gengið frábærlega,“ segir Ágúst Guðmundsson, einn slökkviliðsmannanna sjö sem eru búnir að róa stanslaust frá því á föstudag fyrir Frú Ragnheiði. Róðrinum lýkur á föstudag svo það er nóg eftir.

Þegar blaðamaður mbl.is heyrði í Ágústi í morgun var hann að undirbúa sig fyrir níunda róðurinn sinn, af 24, en hver slökkviliðsmaður rær klukkutíma í senn á sjö klukkustunda fresti. „Við fáum aðeins að anda á milli, orkustigið núna er ágætt en það er helst kannski svefninn sem mætti vera betri hjá öllum. En það verður bara að bíða þar til um jólin,“ segir Ágúst.

Upp­haf­legt mark­mið var að safna hálfri milljón til að kaupa ákveðið tæki fyrir Frú Ragn­heiði, sem er verk­efni Rauða kross­ins í Reykja­vík og hef­ur það mark­mið að ná til jaðar­settra hópa í sam­fé­lag­inu eins og heim­il­is­lausra ein­stak­linga og þeirra sem nota vímu­efni í æð.

Tækið sem um ræðir kost­ar um fimm hundruð þúsund krón­ur og er eins kon­ar vasa­ljós sem auðveld­ar að lýsa upp illa farn­ar æðar. Söfnunin fór það vel af stað að markmiðið náðist um helgina og þá var stefnan sett hærra og nú er markmiðið að safna einni milljón króna.

Einmanalegt að róa á nóttunni

Í morgun höfðu safnast rúmlega 670.000 krónur en þá er ótalið það sem safnast hefur í stærðarinnar söfnunarbauk sem er fyrir utan verlsunina. Ágúst er bjartsýnn á að þeim takist að ná nýja markmiðinu en hann segir stuðninginn einnig skipta miklu máli. „Fólk er að gefa sér tíma til að róa með okkur sem er frábært. Félagi minn sem er bakari kom í morgun klukkan hálffimm, áður en hann fór í bakaríið, og það var algjör snilld,“ segir Ágúst, en hann viðurkennir að það geti verið ansi einmanalegt að róa á nóttunni annars. „Orkustigið er minna hjá öllum á nóttunni, það er bara þannig.“

Kílómetrarnir hrúgast inn og frá því söfnunin hófst síðdegis á föstudag hafa slökkviðliðsmennirnir sjö róið yfir 800 kílómetra. „Við erum að halda svipuðu tempói og við sjáum fram á að fara yfir 2.000 kílómetra eins og við lögðum upp með í upphafi,“ segir Ágúst.

Söfnunin hefur farið mjög vel af stað og getur fólk …
Söfnunin hefur farið mjög vel af stað og getur fólk lagt henni lið á heimasíðu Rauða krossins eða með því að kíkja við í Kringlunni og róa með slökkviliðsmönnunum. Fyrir utan verslunina má einnig finna söfnunarbauk. mbl.is/Hari

„Ég ætla ekki að segja að þetta verði ekkert mál“

Róðrinum lýkur klukkan 17 á föstudag og segir Ágúst að verkefnið fram undan sé verðugt. „Ég ætla ekki að segja að þetta verði ekkert mál. En verkefnið verður klárað það er ekki spurning, við erum öll að róa í sömu átt.“ Ágúst er hins vegar ekki byrjaður að telja niður skiptin sem hann á eftir að róa. „Í dag og á morgun snýst þetta um að halda dampi en þegar kannski svona einn og hálfur sólarhringur er eftir fer ég að leyfa mér að telja niður,“ segir hann.

Hægt er að leggja söfnunni lið með því að kíkja við í verslun Under Armour Kringlunni eða á vefsíðu Rauða krossins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert