Varað við ferðalögum í kvöld

Veðrið á landinu kl. 21:00 í kvöld. Afar hvasst er …
Veðrið á landinu kl. 21:00 í kvöld. Afar hvasst er á Suðurlandi. Kort/Veðurstofa Íslands

Vegagerðin varar vegfarendur við því að vera á ferðinni þjóðvegi eitt á milli Hvolsvallar og Víkur í Mýrdal á milli klukkan 18:00 og 22:00 í kvöld vegna mikils hvassviðris. Hugsanlega geti komið til lokunar þessa kafla. Einnig er varað við ferðum um veginn um Öræfasveit.

„Veðrið er að komast í hámark hérna sunnanlands og verður svona fram eftir kvöldi, en fer væntanlega að detta niður fyrir miðnætti hérna syðst þar sem er hvassast,“ segir Haraldur Eiríksson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Veðrið sé hvað verst syðst á landinu, undir Eyjafjöllum og stóru jöklunum. „Það verður væntanlega rok þarna til svona klukkan tíu, ellefu í kvöld en dettur síðan niður.“ Þegar verst láti verði vindhviður á bilinu 40-50 metrar á sekúndu og þá sé ekkert ferða verður.

Hvað hvassast er þannig sem áður segir í Öræfum, undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og í Fljóstshlíð. Einnig er mjög hvasst á Kjalarnesi og eins undir Hafnarfjalli. Vindhviður eru víða 35-45 m/s en fara mest í allt að 50 m/s sem fyrr segir þar sem veðrið er verst. 

Haraldur segir að sem betur fer muni veðrið ganga tiltölulega hratt yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert