344 ný mál fyrstu 9 mánuðina

Bjarkarhlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Markmið Bjarkarhlíðar er að …
Bjarkarhlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Markmið Bjarkarhlíðar er að veita stuðning og ráðgjöf ásamt fræðslu og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis. Ljósmynd/Vefur Reykjavíkurborgar

Fyrstu 9 mánuði þessa árs komu 344 ný mál á borð Bjarkarhlíðar – þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis. Alls komu 235 málanna frá Reykjavík, 33 frá Kópavogi, 31 frá Hafnarfirði, 18 frá Garðabæ, 6 frá Mosfellsbæ og 2 frá Seltjarnarnesi.

Þetta er nokkur aukning frá því í fyrra þegar málin voru 316 talsins en miðstöðin hóf starfsemi sína 2. mars 2017.

Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs Garðabæjar þar sem Bjarkarhlíð, sem er staðsett við Bústaðaveg í Reykjavík, óskar eftir áframhaldandi stuðningi við verkefnið. Þar segir að eftirspurn eftir þjónustu í miðstöðinni hafi verið mun meiri en gert var ráð fyrir í upphafi.

Mesta aukning mála hefur orðið meðal fólks frá Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi. Þá hafa 196 einstaklingar leitað til lögreglunnar í Bjarkarhlíð, sem veitir fólki ráðgjöf og upplýsingar varðandi meðferð mála í réttarvörslukerfinu. Af þessum 196 málum hafa kærur verið lagðar fram í 36 málum.

„Bjarkarhlíð stendur nú á tímamótum en í árslok lýkur tilraunatíma verkefnisins og Bjarkarhlíð heldur starfseminni áfram sem sjálfstæð félagasamtök með áframhaldandi aðkomu þeirra samstarfsaðila sem komið hafa að verkefninu,“ segir í fundargerðinni.

Fram kemur einnig að í Bjarkarhlíð starfa tveir félagsráðgjafar sem veita stuðning og ráðgjöf. Velferðarráðuneytið hefur fjármagnað þær stöður. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leggur til stöðu rannsóknarlögreglukonu með fasta viðveru á opnunartíma. Grasrótarsamtök eru einnig með reglulega viðveru á staðnum og veita einstaklingum stuðning og ráðgjöf, sem nemur um einu stöðugildi. Reykjavíkurborg leggur til húsnæði, búnað og stendur straum af rekstrarkostnaði hússins sem samsvarar alls 7,5 milljónum króna á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert