Ný samgöngumiðstöð á BSÍ-reit færist nær

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í ræðustól á borgarstjórnarfundi. Mynd úr …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í ræðustól á borgarstjórnarfundi. Mynd úr safni. mbl.is/Hari

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í dag tillögu meirihlutans þess efnis að efnt verði til samkeppni um skipulag Umferðarmiðstöðvarreitsins í Vatnsmýri með það að markmiði að þar rísi alhliða samgöngumiðstöð fyrir Reykjavík, höfuðborgarsvæðið og landið allt, sem þyrfti samkvæmt þarfagreiningu að vera á bilinu 5.000-6.500 fermetrar að stærð.

Borgarfulltrúar minnihlutans sem ljáðu sér máls í umæðum um málið voru nokkuð jákvæð í garð tillögunnar, en Sanna Magdalena Mörtudóttir frá Sósíalistaflokki Íslands setti þó spurningamerki við það að einkafyrirtæki verði falinn rekstur húsnæðisins, eins og frumáætlanir gera ráð fyrir. Hún sagði nauðsynlegt að ný samgöngumiðstöð yrði örugglega fyrir allan almenning.

Baldur Borgþórsson sagði í bókun sinni fyrir hönd Miðflokksins að hann fagnaði uppbyggingunni, þar sem með henni væri innanlandsflugi í Vatnsmýri veittur veglegur sess, en gert er ráð fyrir því að ný samgöngumiðstöð geti einnig þjónað hlutverki flugstöðvar fyrir Reykjavíkurflugvöll, á meðan hann er í Vatnsmýri.

Slíkt fyrirkomulag var sagður áhugaverðasti kosturinn fyrir nýja flugstöð við Reykjavíkurflugvöll í skýrslu verkefnishóps samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins frá því í maí.

Sjálfstæðisflokkurinn vill byggja íbúðir á reitnum

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu sig ósammála þessum fyrirætlunum, en þau hafa talað fyrir því að samgöngumiðstöð rísi austar í borginni og að byggðar verði íbúðir á BSÍ-reitnum í stað samgöngumiðstöðvar.

Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins lét færa þessa sýn borgarstjórnarflokksins til bókar. Í bókuninni segir meðal annars að íbúakannanir hafi sýnt að færri geti búið vestarlega í borginni en vilji, húsnæðisverð í borgarhlutanum sé hátt og framboð eigna lítið.

„Sjálfstæðisflokkurinn vill mæta þessari eftirspurn og telur íbúabyggð á BSÍ-reitnum kjörið tækifæri,“ sagði Eyþór og bætti við að með því að fjölga íbúðum vestarlega og vinnustöðum austarlega mætti ná betra jafnvægi í samgöngum og borgarskipulagi.

Samgöngumiðstöð austar fjölgi skiptingum

Í bókun meirihluta borgarstjórnar, sem Dagur B. Eggertsson bar fram, segir að núverandi staðsetning samgöngumiðstöðvar sé framúrskarandi og feli í sér mikil tækifæri til þess að efla almenningssamgöngur og auka aðgengi að ólíkum ferðamátum fyrir íbúa og ferðamenn. Þá sé umferðarmiðstöðvarreiturinn miðsvæðis og liggi vel til að þjóna mögum stærstu vinnustöðum höfuðborgarsvæðisins.

Meirihlutinn segir jafnframt að ókostur þess að hafa samgöngumiðstöð austar í borginni sé sá að þá myndi skiptingum í strætókerfinu fjölga, þ.e. að strætófarþegar þyrftu í auknum mæli að skipta um vagna til þess að komast á endanlegan áfangastað. 

Borgarstjórn hefur samþykkt að efna til samkeppni um skipulag Umferðarmiðstöðvarreitsins …
Borgarstjórn hefur samþykkt að efna til samkeppni um skipulag Umferðarmiðstöðvarreitsins undir nýja samgöngumistöð, sem jafnframt er gert ráð fyrir að geti þjónað sem flugstöð fyrir Reykjavíkurflugvöll á meðan hann er í Vatnsmýri. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

„Áfram verða mikilvægar skiptistöðvar í Mjódd og annars staðar en ný samgöngumiðstöð er bæði aðkallandi og brýnt verkefni sem getur skilað miklu fyrir borgarþróun og samgöngukerfið,“ segir í bókun meirihlutans.

Næstu skref eru þau, samkvæmt tillögunni, að vísa málinu til skipulags- og samgönguráðs og stjórnar Strætó til umsagnar. Þá verður gerð hermun á umferðarflæði á annatíma til að greina flöskuhálsa, meðal annars á Landspítalasvæðinu, þar sem gert er ráð fyrir að 34-52 strætisvagnar aki um á hverri klukkustund á háannatíma og í kjölfarið verði hugmyndasamkeppni sett af stað, þar sem áform um nýja samgöngumiðstöð eru undir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert