Rigning og auð jörð á aðfangadag

Það mun líklega rigna í höfuðborginni á aðfangadag.
Það mun líklega rigna í höfuðborginni á aðfangadag. mbl.is/​Hari

„Það er ekki útlit fyrir hvít jól í Reykjavík,“ segir Daníel Þorláksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Hálfgert haustveður hefur verið á landinu síðustu daga og ekki er líklegt að jólin verði hvít, nema þá kannski helst á norðausturhlutanum.

Daníel segir að spár geri ráð fyrir hæglætisveðri í vikunni en síðan komi lægð upp að landinu á Þorláksmessu. Úr henni snjói ef til vill örlítið í byrjun en skipti fljótt yfir í rigningu og sá snjór mun ekki tolla.

Svona verður veðrið í höfuðborginni á aðfangadag.
Svona verður veðrið í höfuðborginni á aðfangadag. Skjáskot/yr.no

Spá vefsíðu Veðurstofunnar, vedur.is, nær ekki lengra en fram á Þorláksmessu en samkvæmt Norðmönnunum á yr.no verður huggulegt septemberveður í höfuðborginni á aðfangadag. Þar er gert ráð fyrir 3 til 6 stiga hita og rigningu allan daginn.

„Það verður rigning og auð jörð,“ segir Daníel.

Sé kort sem mælir snjódýpt á landinu skoðuð sést að eini snjórinn er á norðausturhorninu en þar segir að 45 sm flekkóttur snjór sé á Akureyri. „Miðað við það sem ég hef skoðað er víða flekkótt um norðanvert landið sem þýðir að það er ekki samfelld hvít jörð,“ segir Daníel.

Eins og sést á kortinu er ekki mikill snjór á …
Eins og sést á kortinu er ekki mikill snjór á landinu. Kort/Veðurstofa Íslands

Því er ólíklegt að það verði hvít jól einhvers staðar á landinu nema það fari að snjóa í vikunni. Daníel segir að ekki sé útlit fyrir það eins og staðan er núna.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert