Segir „sóunarmenningu“ viðgangast

Benedikt Erlingsson með Lux-verðlaunin sem hann hlaut fyrir myndina Kona …
Benedikt Erlingsson með Lux-verðlaunin sem hann hlaut fyrir myndina Kona fer í stríð. AFP

Leikstjórinn Benedikt Erlingsson segir margt mjög merkilegt koma fram í jólaerindi Guðna Á. Jóhannessonar orkumálastjóra þar sem hann sagði ofbeldið í kvikmyndinni Kona fer í stríð jafn úrelt og bogi og örvar sem stríðstól.

Guðni sagði Benedikt jafnframt vera í mótsögn við meginstef myndarinnar með því að halda myndinni fram sem innleggi í umræðu um loftslagsmál. Á sama tíma sé meginstef hennar að berjast gegn framleiðslu vistvænnar orku og nýtingu hennar.

Benedikt vísar því á Facebook-síðu sinni á bug að söguhetjan Halla sé í mótsögn við sjálfa sig og að hún sé í stríði gegn loftslagsbreytingum og ráðist á álfyrirtæki sem eru knúin grænni orku. Þess í stað sé betra að álið sé framleitt úr hreinu orkunni á Íslandi en úr „skítugu orkunni í útlöndum“, eða olíu og kolum. Leikstjórinn segir þessa skoðun hafa heyrst áður og að sumir vilji meina að okkur beri siðferðisleg skylda til að fórna hálendi Íslands fyrir grænu orkuna sem heimurinn þarfnist.  

Halldóra Geirharðsdóttir í hlutverki sínu í kvikmyndinni Kona fer í …
Halldóra Geirharðsdóttir í hlutverki sínu í kvikmyndinni Kona fer í stríð.

Hann segir að Halla myndi svara gagnrýninni með því að segja loftslagsvandann sprottinn úr lífsstílsvanda mannskyns. Sóunarmenning viðgangist, eða öllu heldur sóunarkapítalismi og álframleiðsla og álbransinn sé eitt besta dæmi um það.

„Þó að álið sé gífurlega mikilvægur málmur því hann léttir fartæki og minnkar þar með losun þá er því miður áli sóað eins og einginn væri morgundagurinn í alskyns einota formi. Má þar nefna áldósir, nesressóhylki, sprengjur og hergögn,“ skrifar hann og bendir á að í Bandaríkjunum sé jafnmiklu hent af áli og framleitt er á Íslandi.

„Áður en við björgum heiminum með því að fórna hálendinu okkar þá verðum við eða leggja af þennan sóunarkúltur annars erum við bara að viðhalda honum. Það er þessi sóunar kúltur sem er ofbeldið sem beinlínis mun bitna á börnum okkar.“

Hann bætir við það sé merki um ofbeldi og svik að auka framleiðslu með grænni orku án þess að framleiðsla með svartri orku sé minnkuð á móti. „Það má kallað það glæpi sem hafa verðið látnir viðgangast og munu beinlínis bitna á börnum okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert