Sigrún, Kári og rektor ræða uppsögnina

Uppsögn Sigrúnar Helgu Lund, prófessors í líftölfræði, er til umræðu …
Uppsögn Sigrúnar Helgu Lund, prófessors í líftölfræði, er til umræðu á fundi rektors, Sigrúnar og Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, sem átti frumkvæði að fundinum. mbl.iS/Ómar Óskarsson

Sigrún Helga Lund, Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands og Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sitja nú á fundi þar sem uppsögn Sigrúnar er til umræðu.

Sigrún sagði starfi sínu lausu þar sem hún taldi full­reynt að fá viðbrögð frá stjórn­end­um skól­ans við erfiðum sam­skipt­um og kyn­ferðis­legri áreitni sem hún sagðist hafa mátt þola af yf­ir­manni sín­um, Sig­urði Yngva Kristinssyni, í rúm­lega tvö ár.

Sigurður Yngvi hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann hafnar því að hafa beitt hana and­legu of­beldi eða áreitni af neinu tagi.

Komin með fullt starf hjá Íslenskri erfðagreiningu

Kári bauð Sigrúnu fullt starf hjá Íslenskri erfðagreiningu eftir að hann heyrði af uppsögn hennar, en Sigrún hefur starfað í hlutastarfi hjá fyrirtækinu í rúm tvö ár. Fréttablaðið  greindi fyrst frá. „Þetta er óheppilegt að háskólarektor brást ekki við dómi siðanefndar fyrr. Það var klaufaskapur og við ætlum þrjú að hittast og finna leið til þess að menn geti gengið óskaddaðir frá þessu,“ segir Kári í samtali við mbl.is.

Hann segir Sigrúnu afburða góðan starfskraft og að hann vilji að eiginleikar hennar nýtist að fullu innan fyrirtækisins. „Hún er alveg sérstaklega góður kennari og hefur lagt mikið á sig til að kenna yngra fólki hér innanhúss.“

Kári Stefánsson bauð Sigrúnu Helgu fullt starf hjá Íslenskri erfðagreiningu …
Kári Stefánsson bauð Sigrúnu Helgu fullt starf hjá Íslenskri erfðagreiningu þegar hann frétti af uppsögn hennar.

„Kári er búinn að vera eins og klettur“

Sigrún þáði starfið með þökkum. „Kári er búinn að vera eins og klettur alveg síðan þetta mál kom upp,“ segir hún. Kári átti frumkvæðið að fundinum með rektor og Sigrúnu, en Sigrún gagnrýndi rektor í færslu sinni á Facebook í morgun fyrir að hafa ekki samband við hana frá því að úrskurður siðanefndar var birtur í júlí. „Ég rabbaði við Sigrúnu og svo rabbaði ég við rektor og við komumst að þeirri niðurstöðu að við ættum að setjast niður og finna lausn á þessu máli. Mér finnst að hún eigi skilið að þetta mál verði til lykta leitt,“ segir Kári.

Sigrún vissi ekki alveg við hverju hún á að búast við á fundinum. „Ég held að það sé alltaf gott að setjast niður og tala saman og ég held að rektor sé augljóslega góður maður sem vill taka á málunum en hann þarf kannski að öðlast betri skilning um þessi mál.“  



Sigrún Helga Lund, prófessor í líftölfræði við Miðstöð í lýðheilsuvísindum …
Sigrún Helga Lund, prófessor í líftölfræði við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, hefur sagt upp störfum vegna kynferðislegrar áreitni yfirmanns. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert