Vilja fæða 20 þúsund börn í Jemen

Rauði krossinn á Íslandi hefur í þrígang verið með sendifulltrúa …
Rauði krossinn á Íslandi hefur í þrígang verið með sendifulltrúa í Jemen og séð ástandið hríðversna AFP

„Neyðin sem fólkið í Jemen stendur frammi fyrir er skelfileg og hefur farið síversnandi,“ segir Atli Viðars Thorstensen, sviðstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins á Íslandi. Á föstudag lýkur neyðarsöfnun Rauða krossins vegna hungursneyðar í Jemen.

Þegar hefur safnast upphæð sem dugar fyrir mat fyrir fjórtá þúsund börn í Jemen í heilan mánuð, en markmiðið er að Íslandsdeild Rauða krossins nái til 20 þúsund barna með fjármagninu.

Undirbúningur fyrir það sem koma skal

Atli segir að Rauði krossinn á Íslandi hafi í þrígang verið með sendifulltrúa í Jemen og séð ástandið hríðversna. „Við erum að safna til þess að vera í stakk búin til þess að takast á við það sem er í gangi og það sem koma skal í Jemen.“

„Jafnvel þó það sé kominn einhver vísir að friði þá eru innviðir landsins svo veikir og ástandið svo slæmt að það mun taka tíma að snúa þróuninni við.“

Atli segir marga ekki átta sig á að Rauði krossinn séu þau samtök sem hafa hvað best aðgengi um landið allt, enda fái Rauði krossinn samþykki deiluaðila til að fara yfir víglínur og aðstoða íbúa sem orðið hafa fyrir stríðandi fylkingum, hvort sem það er í borgum eða smæstu þorpum landsins.

Auk mataraðstoðar stuðlar Rauði krossinn meðal annars að uppbyggingu vatnsdreifikerfis í Jemen, sendir þangað lækna og hjúkrunarfræðinga til starfa og hefur milligöngu um lausn Jemena sem haldið er í gíslingu vegna átakanna.

Hægt er að styrkja hjálparstarf Rauða krossins í Jemen um 2.900 krónur með því að senda SMS-ið HJALP í númerið 1900. Einnig má leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649. Sú upphæð dugar til þess að þrjú börn í Jemen fái mat í einn mánuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert