„Sennilega æfingasprengja úr seinna stríði“

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru kallaðir til Ísafjarðar í dag og eyða …
Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru kallaðir til Ísafjarðar í dag og eyða nú því sem líklegast er æfingasprengja úr seinna stríði. Ljósmynd/Ágúst Atlason

 „Þetta er sennilega æfingasprengja frá seinna stríði,“ segir Ásgeir Guðjónsson, sprengjusérfræðingur hjá Landhelgisgæslu Íslands, í samtali við mbl.is, en hann er að störfum á Ísafirði þar sem tilkynnt var um torkennilegan hlut sem fannst í grunni húss við Þvergötu.

Æfingasprengjan verður fjarlægð úr húsinu og eytt innan skamms með sprengihleðslu og engin hætta er á ferðum, enda gæti æfingasprengja sem þessi ekki valdið tjóni á öðrum en þeim sem handleikur hana, skyldi hún springa. Sprengjur sem þessar gefa oftast frá sér ljós eða reyk.

Ásgeir segir ekki alveg ljóst hverrar tegundar sprengjan er, vegna þess hve illa hún er farin, en að „klárlega“ sé um einhvers konar æfingabúnað að ræða, sem hafi að öllum líkindum borist úr sjónum, þar sem í húsgrunninum er sjávarmöl.

„Okkur finnst líklegast að þetta komi úr sjónum með einhverju slíku, það hafa verið verkefni þar sem hafa fundist gamlar sprengjur sem hafa komið úr sjó, það er alveg þekkt. En þetta er ekki eitthvað sem er í jarðveginum í gamla bænum [á Ísafirði], þetta hefur verið flutt að,“ segir Ágúst.

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar keyrðu frá Reykjavík í dag, en húsráðandi tilkynnti um fund æfingasprengjunnar í morgun. Lögreglan á Ísafirði tryggði að enginn væri á vettvangi þar til sérfræðingar Landhelgisgæslunnar komu á svæðið.

Ásgeir segir húsráðanda hafa brugðist hárrétt við, er hann tilkynnti um fundinn til lögreglu. „Við hvetjum alltaf landsmenn frekar til þess að fólk láti vita um svona hluti, þá komum við glaðir og eigum við málið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert